144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:44]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það segir sig sjálft að það verður samþjöppun, til þess er leikurinn gerður. Eðli þess að hlutdeildarsetja er að auka hagræðingu og hagræðingin felst í því að veiða aflann á færri báta. Menn geta kallað það samþjöppun eða annað, en þetta felst í því að veiða á hagkvæmari hátt fyrir alla, fyrir land og þjóð og þá sem veiðarnar stunda, þ.e. að geta þó stundað þetta í einn eða tvo mánuði.

Fyrir þá smábátasjómenn sem fá lítið er það bara einfalt reikningsdæmi, það er ekki nema þeir séu búnir að tryggja sér eitthvað fyrir viðráðanlegt verð, sem ég veit ekki hvert gæti verið. Óhjákvæmilega verða færri bátar. Svo getum við deilt um það hvort þetta á að vera 5%, 10% eða 20%.

Ég mundi halda að það væri vel ásættanlegt að vera með 5%, mér finnst það mikil áhætta í þessum potti ef við ætlum að láta reyna á það alveg fram í haustið hvort það veiðist. Ef það á að hlutdeildarsetja þetta (Forseti hringir.) á annað borð hef ég ekki verið að heimta að sá pottur verði aukinn.