144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[13:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að hefja máls á þessu og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, svo langt sem þau ná. Það endurspeglast í upphafi máls hér og umræðu hversu mikilvægt er að við förum að taka á þessu máli. Þó að við vitum að það verður aldrei endanlegt hefur þetta mál, eins og þegar hefur komið fram, ítrekað verið á dagskrá mörg undanfarin ár. Á síðustu árum, eftir hrun má segja, hafa gefist fleiri og fleiri tilefni til þess að taka þetta mál sérstaklega til skoðunar. Fram hafa komið upplýsingar, í bókum og öðru, um að menn hafi setið og nánast njósnað um þingmenn, mótmælendur, einhverja sem voru grunaðir um að vera hættulegir í samfélaginu o.s.frv. og fylgst með þeim með skipulegum hætti. Ég ætla að vona að þetta heyri sögunni til. Þó að hægt sé að fylgjast með okkur í gegnum tæknina ætla ég að vona að það séu hvorki stjórnmálaflokkar, lögregla né aðrir sem eru að fylgjast með einstaklingum. Það þarf að vera tryggt að svo sé ekki.

Við sjáum líka að ástæða er til að vanda okkur sérlega í kringum þennan málaflokk. Skýrslan sem samin var um mótmælin á Austurvelli sýnir orðafar og hugarfar sem veldur manni ugg. Það þarf að eiga sér stað hér hreinskiptin umræða og þess vegna væri mikilvægt að til dæmis drög réttarfarsnefndar, ásamt því frumvarpi sem Píratar leggja hér fram og frumvarpinu sem fyrrverandi innanríkisráðherra lagði fram, yrðu lögð undir öflugan starfshóp sem allir stjórnmálaflokkar kæmu að og jafnvel fleiri aðilar, mannréttindasamtök og aðrir slíkir, sem legðust yfir það í snatri — ég bý mig kannski undir það fyrir haustþingið — með hvaða hætti við viljum sjá að að þessu máli verði unnið. Ég held að við þurfum að taka af allan vafa um að þessu sé ekki beitt nema í algjörum undantekningartilfellum, þ.e. símhlerunum, og að það liggi þá fyrir hvenær þeim er beitt og hver orsökin er og að ávallt sé leitað til dómstóla.