144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[13:46]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu og hæstv. innanríkisráðherra Ólöfu Nordal fyrir mjög greinargóð svör þar sem hún gerir mjög góða grein fyrir þeirri vinnu sem er í gangi innan ráðuneytisins er varðar þessi mál.

Eins og fram hefur komið í umræðunni eru heimildir til hlerana einungis veittar með úrskurði dómstóla að undangenginni kröfu lögreglu þar um og að uppfylltum tilteknum lagaskilyrðum er koma fram í lögum um meðferð sakamála. Fram hefur komið, það sem maður hefur séð í þeim gögnum, að þessa heimild eigi að veita vegna mansalsmála, fíkniefnamála og stórra efnahagsmála. Samt hefur komið fram að jafnvel sé einhver brestur á því og þess vegna er mjög mikilvægt að taka þessa umræðu. Ég fagna því mjög, sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra og fleiri þingmönnum, að mikilvægt sé að taka umræðuna og horfa þar meðal annars á það sem kemur frá réttarfarsnefnd og jafnvel frumvörp Pírata er varða þessi mál. Við getum tekið þessa umræðu, sérstaklega vegna þess að bent hefur verið á að meginþorri þeirra umsókna er berast varðandi símhleranir sé samþykktur. Eins og fram kom hjá framsögumanni í þessari umræðu eru um 99% mála samþykkt.

Í lögunum um meðferð sakamála stendur einmitt að leyfi til hlerunar sé eingöngu veitt ef rík ástæða er fyrir hendi og ef um upplýsingar er að ræða sem geta skipt miklu máli fyrir rannsókn mála. Það kemur jafnframt fram í lögunum að það sé ákveðinn og takmarkaður tími sem veittur er þegar heimild er veitt og mikilvægt að farið sé eftir þeim tímaramma. Ég vil bara taka fram að það er mjög mikilvægt að jafnvægi sé á milli þeirra rannsóknarheimilda sem veittar eru og mannréttinda okkar þegar verið er að ræða þessi mál.