144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[13:55]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kemur ágætlega fram í þessari umræðu að góður samhljómur virðist vera um að við þurfum að skerpa reglur og skýra þó að komið hafi í ljós hjá síðasta hv. þingmanni að ágreiningur kunni að vera um forvirkar rannsóknarheimildir. Ég er hræddur um að það geti orðið miðað við stuðning hv. þingmanns við þær hugmyndir.

En það sem maður hefur ávallt áhyggjur af er að það er svo auðvelt að ala á tortryggni og ótta. Það kemur alltaf upp með reglulegu millibili í samfélaginu að verið er að búa til einhverjar grýlur — það þarf að fylgjast með þessum og hinum og menn gera af litlu tilefni oft mikið úr hlutum. Kannski er ágætisdæmi um það það sem gerðist fyrir utan Alþingishúsið í gær þar sem um var að ræða friðsamleg mótmæli en menn óttuðust að þar stæði eitthvað meira til. Gripið var til frekar alvarlegra aðgerða til að stöðva það. Mótmælin voru þörf áminning til okkar um að íslenska Alþingið hefur ekki fylgt eftir þeirri samþykkt um að rannsaka einkavæðingu bankanna, sem dæmi. Er ástæða til að fylgjast með slíkum aðilum? Er ástæða til að setja þá inn í eitthvert kerfi til að fylgjast með þeim? Að sjálfsögðu ekki. Um þetta snýst þetta að hluta til, þ.e. þessar forvirku rannsóknarheimildir, en ekki síður konkret um símhlerunina.

Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni þar sem hann bendir á að það er forvitnilegt að sjá hvaða umsóknir hafa borist, hvers eðlis þau mál eru, þar sem veitt hefur verið leyfi fyrir símhlerunum, sem lýsa að einhverju leyti líka forganginum í verkefnum hjá lögreglunni.

Allt þetta þarf að taka til umræðu og af því að það er svona góður samhljómur held ég að við ættum að reyna að fylgja því eftir, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að draga þá aðila að borðinu sem eru að véla um þetta, draga fram þau gögn sem hafa verið lögð fram á undanförnum árum og þá reynslu sem hefur verið. Það er forvitnilegt að gúgla þetta mál vegna þess að það kemur mikið upp af gömlum ræðum frá hv. Alþingi um þetta mál á fyrri þingum — draga þetta fram og reyna að setja okkur reglur, nú þegar lag er hér í þinginu til að ná saman um slíkt.