144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl. Þetta er nýtt og sjálfstætt frumvarp, sérlög um makrílinn, og í sjálfu sér ástæða til að velta fyrir sér af hverju það er gert með þessum hætti, en ég kem kannski betur að því síðar.

Það vakti athygli mína, þegar ég sá frumvarpið, að í því eru fólgnar gríðarlegar breytingar. Verið er að ákveða að kvótasetja með aflahlutdeild en það þýðir að ákveðin prósenta af þeim veiðistofni sem ákveðinn er á hverju ári rennur til ákveðinna útgerða eftir ákveðnum reglum. Það er verið að úthluta þessum stofni varanlega í hlutdeild og þar með að loka kerfinu miðað við þessa löggjöf.

Þetta felur um leið í sér að í staðinn fyrir að ákvarðanir séu teknar frá ári til árs myndast ákveðið verðmæti fyrir þær útgerðir sem fá þennan kvóta og möguleiki opnast á framsali, bæði með varanlegu framsali — þ.e. að selja frá sér þessa heimild til annars aðila, og þannig er það útgerðin sem fær leyfi til þess að fénýta þessa kvótasetningu — og með leiguframsali, þ.e. innan ársins, sem þýðir að menn veita öðrum heimild til að nýta auðlindina og taka þá arðinn af henni.

Aðalágreiningurinn um fiskveiðistjórnarkerfið — auðvitað er ágreiningur um það hvort yfir höfuð eigi að vera kvótakerfi og allt það, og síðan hvort það eigi að vera aflahlutdeild — hefur verið sá að við virðumst öll í orði kveðnu viðurkenna að um þjóðarauðlind sé að ræða og að þjóðin eigi að njóta arðsins af auðlindinni, en við höfum búið til kerfi sem veitir ákveðnum aðilum, sem hafa fengið rétt miðað við ákveðna veiðireynslu, leyfi til þess að selja frá sér þessa heimild, fara með peningana í eitthvað allt annað, en skuldin verður ávallt eftir hjá viðkomandi útgerðarfyrirtæki og íþyngir henni. Við höfum ágætisdæmi um þetta úr almenna kerfinu þar sem menn eru meira og minna að reyna að bjarga heilu landsvæðunum eftir að stórir aðilar hafa selt stóran hluta af kvóta viðkomandi svæða og erum við þar að tala til dæmis um Vestfirði.

Það kom mér á óvart að hæstv. sjávarútvegsráðherra skyldi velja þessa leið. Hann felur sig á bak við það að álit sé komið frá umboðsmanni Alþingis og að það séu lög í landinu sem verði að fara eftir samkvæmt þeim úrskurði. Á sama tíma hefur verið upplýst að í gangi er dómsmál þar sem viðkomandi ætlar þá að sækja rétt sinn og fá úr því skorið hve miklu hann hefur tapað á því að þessi tegund hafi ekki verið kvótasett fyrr.

Þarna er um að ræða gríðarlega stóra prinsippumræðu um það hver eignaeinkarétturinn er í gegnum kvótakerfið og það kemur á óvart að ráðherra skuli taka afstöðu með því að fara þessa leið. Það er veikur málflutningur, að mínu áliti, að fela sig á bak við lögin, vegna þess að í raun og veru er hér verið að semja ný lög. Þá má skilja það þannig, eins og ég vakti athygli á í andsvari í morgun, að hæstv. ráðherra sé að segja: Ja, við ætlum að setja lög um að framfylgja lögum, og meginrökin fyrir því að þessi lög eru svona eru þau að önnur lög segja okkur að hafa þetta svona.

Ég held að menn hefðu þurft að hugsa þetta miklu lengra, halda sig við það að ekki væri framsal á þessu í byrjun, að úthlutað væri með öðrum hætti og menn létu reyna á það hvers virði þessi auðlind er með því að leyfa markaðnum að koma að því í gegnum tilboðsmarkað — ég nota orðið tilboðsmarkaður en ekki uppboðsmarkaður — eða kvótaþing. Það er því miður ekki gert og ég ætla rétt að vona að þingið fari vel yfir þetta og reyni að skoða hvað þessi breyting felur í sér.

Það stuðaði ráðherra þegar ég nefndi í gær tölur, að þarna væri verið að færa útgerðum landsins 100–150 milljarða. Ég skal hreinskilnislega viðurkenna að ég notaði töluna úr Kjarnanum. sem mat þetta upp á 150 milljarða en hafði varann á með því að nefna bara 100 milljarða. Það er hægt að nálgast þetta á annan hátt og segja að íslenska sjávarútvegskerfið geri ráð fyrir því að verðmæti fisktegunda sé metið í þorskígildum. Ef ég veit rétt er þorskígildisstuðull makrílsins í kringum þriðjungur af þorskinum, þ.e. 33%. Ef við gefum okkur að verðið á varanlegum aflaheimildum í þorski sé einhvers staðar á bilinu 2.000–2.200 kr. — var á tímabili fyrir hrun 4.000 kr., eins og frægt er orðið, ég veit ekki nákvæmlega hver talan er í dag — erum við strax komin með 100–120 milljarða ef makríllinn er jafnvirði þriðjungs.

Færa má rök fyrir því að óljóst sé hversu langur líftími verður hvað varðar makrílinn og einnig má færa rök fyrir því að sérstakt veiðigjald á makríl hafi áhrif á markaðinn. Hefði ekki verið gáfulegra að láta reyna á hvert þetta verðgildi væri og tryggja að andvirði þess verðgildis rynni í ríkissjóð með því að fara með þetta í gegnum kvótaþing eða tilboðsmarkað?

Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra þegar hann segir að mikilvægt sé að halda hagkvæmninni í íslenskum sjávarútvegi. Það er mikilvægt að við rekum sjávarútveginn í gegnum markaðskerfi og reynum að tryggja að hér sé samkeppni, að minnsta kosti að einhverju leyti. En því miður stíga menn einhverra hluta vegna skrefið aldrei til fulls. Það er í sjálfu sér engin áhætta fólgin í því að fara með þetta yfir í tilboðsmarkað eða kvótaþing einfaldlega vegna þess að þær útgerðir sem hafa útbúið sig til veiðanna munu hafa forskot, þær hafa veiðireynslu og útbúnað.

Þegar menn fara út í svona tilboðsmarkað eða kvótamarkað þarf líka að tryggja að búið sé að setja um það umgjörð svipað og er í kvótafrumvarpinu að öðru leyti, að ekki sé hægt að vera handhafi nema ákveðins hluta af viðkomandi stofni. Eins er hægt að svæðisbinda ákveðinn hluta og tryggja að smábátar, eða línu- og handfærabátar, fái ákveðinn hluta og sá hluti er í þessu frumvarpi allt of lítill að mínu mati.

Frumvarpið er lagt fram og sagt að þarna sé takmarkaðri úthlutun en í almenna kvótakerfinu, að hér sé úthlutað til sex ára og síðan eitt ár í senn. Þó er tekið sérstaklega fram að í raun er bara verið að segja að búið sé að úthluta varanlega en hægt sé að segja þeim samningi upp með sex ára fyrirvara, og tryggja það til dæmis að ein ríkisstjórn geti nú ekki breytt þessu, því að það þarf alltaf að fara í gegnum tvær. Það er miklu betri trygging og miklu meiri festing í þessum tillögum um makrílinn en er í stóra almenna kerfinu, þ.e. í hinum hlutanum. Þar er bara úthlutað til eins árs í senn.

Það er líka svolítið merkilegt þegar menn koma með þá fullyrðingu að ekki sé hægt að víkja frá þeirri meginreglu sem hefur verið vegna þess að það eru svo margar undantekningar frá meginreglunum. Það hefur verið gripið til sérákvæða án þess að það hafi verið fellt með lagasetningu. Það er líka mjög fróðlegt að skoða lögfræðiálit, sem meðal annars voru unnin í tengslum við skoðun á sjávarútveginum á síðasta kjörtímabili. Þar kemur skýrt fram frá ákveðnum aðilum að í almennum lögum er jú þjóðareignarákvæðið og jafnvel þó að einhver réttur kunni að hafa skapast þá sé búið að sýna sig, með þeim breytingum sem hafa orðið á síðastliðnum árum, að menn hafa þann sameiginlega skilning að hægt sé að breyta og hafa ólíkar reglur, bæði eftir tímabilum og eins líka eftir fiskstofnum.

Það eru mörg fordæmi fyrir því að fiskstofnum hefur verið úthlutað með annarri reglu eða með sérstökum reglum. Þar höfum við nýlegasta dæmið um rækjuna. Það er frægt málið sem slagur varð um þegar skötuselurinn var ræddur, hvernig fara ætti með hann, af því að þar var veiðireynslan öll bundin við ákveðið svæði. Skötuselurinn fór síðan að synda nánast hringinn í kringum landið og þá opnuðu menn og breyttu fyrirkomulaginu um kvótasetningu hans o.s.frv. Menn hafa komist upp með þetta, norsk-íslenska síldin o.fl., þannig að engin ástæða er til annars en að minnsta kosti að ætlast til þess í þeim skilningi að íslenskt löggjafarvald, Alþingi, hafi heimild til að gera slíkar breytingar, og það sé löggjafinn sem ákveði það. Hægt er að gagnrýna það að það hafi ekki komið lög á undan o.s.frv.

Hér er verið að setja sérlög. Það er verið að setja ný lög. Og það sem veldur vonbrigðum, en kemur kannski ekkert mjög á óvart, er hverjir hafa forgang við þessa breytingu. Það er ekki vilji hæstv. ráðherra að víkja frá þeirri hugmyndafræði að þessum auðlindum skuli skammtað til útgerðaraðila, til ákveðinna hagsmunaðila. Það er í raun í sama anda og nánast allt sem gert er af þessari ríkisstjórn. Hún veit alveg hverjum hún vill hygla, því miður, og það veldur miklum vonbrigðum en þannig er þetta.

Þegar við ræðum sjávarútveginn er mikið rætt um nýliðunarmöguleika. Þá segja menn: Ja, það er enginn vandi að vera nýliði í kvótakerfinu, þú verður bara að kaupa þér kvóta, þú verður bara að leigja þér kvóta. Það er eins eftir að þessi breyting verður. En takið eftir því af hverjum er verið að kaupa og leigja, hver það er sem fær peninginn. Það er útgerðin sjálf. Ríkið er búið að framselja heimildina til þess að hafa arð af greininni — þ.e. af auðlindinni per se, ekki af veiðunum — til annarra aðila. Það finnst mér vera mjög varhugavert og ég hef alltaf verið á móti því. Og ef menn ætla að reyna ná sátt þá er grundvallaratriði að þessu verði breytt á einhvern hátt, að jafnræðið verði aukið og aðgengi í sambandi við nýliðun verði aukið líka.

Eitt af því sem er vitnað í, í sambandi við sjávarútveginn, af núverandi ríkisstjórn er skýrslan sem svokölluð sáttanefnd — orð sem maður er sjálfur farinn að nota, hún hét það nú aldrei, var samstarfshópur um að reyna að leita leiða til að finna sameiginlegar lausnir í sjávarútvegi — lagði fram. Ég hef margítrekað það úr þessum ræðustól að því miður kom engin ein niðurstaða út, skoðanir voru mjög skiptar um það hvað væri best. Samfylkingin lagði fram sína tillögu um það sem þá var kallað tilboðsleið, sem var um það að markaðsvæða sjávarútveginn. Hún hlaut ekki náð fyrir þeirri nefnd á þeim tíma. En eitt var það sem allir voru sammála um, það var að fyrsta atriðið væri að koma ákvæðinu um þjóðarauðlindir, og þar með sjávarauðlindina, inn í stjórnarskrá.

Í staðinn fyrir að útfæra það ákvæði í smáatriðum vitnaði hópurinn í útfærsluna frá árinu 2000 þar sem nákvæm skýring er á því hvernig þetta auðlindaákvæði eigi að vera í stjórnarskrá, þar sem menn túlka þjóðareign. Hvað þýðir það að það liggi í stjórnarskrárákvæðinu? Og það sé ekki aðeins verið að tala um fisk heldur sé líka verið að tala um aðrar auðlindir. Þessu var vísað til vinnu stjórnlaganefndar og þeirra sem voru í að endurskoða stjórnarskrána. Niðurstaða kom úr því, ágætistillaga. Þetta ákvæði var ein af þeim sex spurningum sem lagðar voru fyrir þjóðina og mikill meiri hluti telur sjálfsagt og nauðsynlegt og studdi það að þetta ákvæði færi í stjórnarskrá.

Því hlýtur maður að gera þá kröfu til hæstv. sjávarútvegsráðherra, og raunar til ríkisstjórnarinnar og til Alþingis, að þetta ákvæði verði sett inn til þess að hægt verði að gera þetta á þessu kjörtímabili það þarf 2/3 þingmanna. Slíkt mál ætti að vera auðsótt. Byrjum nú á því áður en við förum í að festa í sessi ákveðna hluti, eins og makrílinn í þessu tilfelli, í eiginlega enn verri útgáfu af kvótakerfinu en er þó í gangi fyrir.

Það verður fróðlegt að fylgjast með. Ég hafði stór orð um það hve háar upphæðir væru í húfi. Við ræddum hér um stöðu landbúnaðar á sínum tíma og erlendir ráðgjafar komu til þess að styðja Bændasamtökin í því að við gætum ekki sótt fyrirmynd frá erlendum ríkjum í sambandi við okkar landbúnaði. Við fengum þar meðal annars íslenskan sérfræðing frá Nýja-Sjálandi. Ég man eftir fundum sem Bændasamtökin héldu á þeim tíma, og þá var verið að ræða um kvóta í landbúnaði. Hann sagði: Hvernig dettur ykkur í hug að kvótasetja landbúnað þannig að hægt sé að selja sig út úr greininni og skilja skuldirnar eftir á henni? Þetta er grundvallarspurning sem aldrei hefur verið svarað. Vestfirðirnir, 3 milljarða kvóti er seldur út af svæðinu Jú, þeir héldu 50–60% eftir með því að skuldsetja útgerðina á Vestfjörðum fyrir 1.600 millj. kr., heimildina til að veiða fiskinn, 3 milljarðarnir voru farnir út úr kerfinu. (Forseti hringir.) Það er þetta sem við erum að verjast, en það er þetta sem frumvarpið er að festa í sessi og þess vegna hlýt ég að lýsa andstöðu við það.