144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hæstv. ráðherra hefur mikið falið sig bak við álit umboðsmanns Alþingis í þessu máli, að ekki sé búið að kvótasetja miðað við veiðireynslu og lögsókn ákveðins fyrirtækis sem vildi að öllu væri úthlutað til þeirra sem eru handhafar aflahlutdeildar í dag. Telur hv. þingmaður að löggjafinn geti breytt þessu á annan veg en hér er verið að gera og rökstutt það?

Mér fannst gott að heyra að hv. þingmaður sagði í lok ræðu sinnar að í raun væri verið að skilja eftir miklar skuldir inni í greininni, í kjölfar þess að þetta framsal færi að virka eins og í því kerfi sem við þekkjum í dag, með því að menn fari að selja sig út úr greininni og skuldsetja þá innan greinarinnar. Er ekki þar verið að framkvæma eitthvað sem er algjörlega óþarft, að fara að bæta þessari skuldsetningu við inn í þennan geira? Er einhver þörf á því að hagræða ef afleiðingarnar verði þær að aukin skuldsetning verði innan greinarinnar?

Hvað heldur hv. þingmaður um það að makríllinn breyti hugsanlega göngu sinni og fari út úr íslenskri lögsögu? Ættu menn þá ekki sambærilegan rétt og þeir sem hafa verið í rækju og skel á að fá bætur í kjölfarið miðað við þann gjörning fyrri stjórnvalda?