144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að fyrsta spurningin sem eðlilegt er að velta upp í tengslum við þetta frumvarp sé: Hvers vegna að kvótasetja makríl nú, áður en menn fara að ræða um fyrirkomulagið eða tillögurnar sem svo eru gerðar í sambandi við það? Er nauðsynlegt að taka þetta skref? Er það tímabært? Er það pólitískt rétt að færa nú þessa tegund inn í kvótakerfið og það með þetta rækilegum hætti eins og verið er að leggja til hér? Það á ekki að vera að reyna að færa það í neinn felubúning með því að kvótasetja tegundina að fullu á grundvelli aflareynslu skipa og meira að segja lögbinda það sérstaklega í sex ár með fullum heimildum til framsals innan viðkomandi tveggja hópa. Það er álitamál að mínu mati.

Vissulega skil ég alveg þörfina fyrir að skjóta sterkari lagastoð undir einhvers konar tímabundna stjórnun á makrílstofninum og hefði vel mátt gera fyrr, það er rétt. Það ragar að vísu ekki sérstaklega upp á þann sem hér stendur því að það var svo sannarlega lagt til í frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða árið 2012, sem ég flutti, að búa stjórnvöldum út mun rýmri veiðiheimildir til þess að stýra með tímabundnum ráðstöfunum fiskveiðum í nýjum stofnum eða flökkustofnum sem kæmu nýir eða í auknum mæli inn í landhelgina. Lagaákvæðin eins og þau eru í dag eru auðvitað meingölluð og gefa stjórnvöldum að mínu mati alls ekki nægjanlegt rými til þess að stýra og fylgjast með framvindu og þróun mála, láta þróunina smátt og smátt ná jafnvægi og stöðugleika þannig að hægt sé svo við einhverjar sæmilega stöðugar aðstæður að ákveða með hvaða hætti eða hvort það verður fært inn í almenna fiskveiðistjórn.

Þótt ég segi þetta deili ég ekki áhyggjum manna af því að ríkið sé í mikilli hættu að tapa málaferlum fyrir þeim sem sækja að því fyrir að hafa ekki úthlutað þessu öllu í kvóta jafnvel þegar árið 2011. Ég geri það nú ekki og treysti því auðvitað að tekið verði til myndarlegrar varnar fyrir hönd ríkisins. Hvers vegna hefðu menn átt að gera það? Hefði það verið málefnalegt og eðlilegt að láta eingöngu veiðireynslu tilfallandi veiða sem koma mjög hratt til sögunnar með göngu makrílsins hér á okkar slóðir, aðallega frá og með árinu svona 2007–2008? Bara negla það allt saman fast niður strax?

Það hefði til dæmis þýtt að aldrei hefði reynt á möguleika minni fiskiskipa, strandveiðiflotans, til að eiga hlutdeild í þeirri nýtingu. Hefði það verið gáfulegt? Hefði það verið sanngjarnt? Nei, auðvitað ekki. Það er ósamið um þennan stofn, það hefur engin veiðireynsla myndast í stöðugu umhverfi á grundvelli sömu fiskveiðistjórnarákvarðana ár eftir ár fyrr en frá og með árinu 2011, því að þessu var breytt í þrígang á árunum þar á undan. Veiðar voru frjálsar öllum skipum með veiðileyfi fram til 2009. Þær eru það áfram en þá er í fyrsta sinn sett þak á heildarveiðina til þess að verja Ísland fyrir ásökunum um að við stunduðum hér óheftar sjóræningjaveiðar og það er náttúrlega ómögulegur málstaður á alþjóðavettvangi. Þess vegna var gripið til þess ráðs í mars 2009 að tilkynna um heildarveiðina.

Árið 2010 var þessu aftur breytt og þá var opnað fyrir möguleika annarra hluta flotans en uppsjávarskipanna til þess að koma inn í þetta og 2011 voru enn gerðar á þessu breytingar. Mega stjórnvöld það ekki? Jú, ég tel það. Ég tel það með skírskotun til almennra heimilda stjórnvalda til stýringar í þessum efnum, sanngirnissjónarmiða þessarar sögu og af mörgum fleiri ástæðum að viðbættu því að ekki hefur samist um hlutdeild Íslands í þessum stofnum. Við vitum ekki hverju við værum að skipta. Við vitum ekki hvers konar ákvæði yrði í samningum sem við mundum gera við önnur lönd svo sem eins og með það að hve miklu leyti yrðum við að sækja allan aflann innan okkar eigin lögsögu eða fengjum við aðgang að lögsögu annarra ríkja o.s.frv.? Allt skiptir það máli þegar kemur að því að ákveða stýringuna og fyrirkomulagið hjá okkur.

Menn tala hér um fyrirsjáanleika í samhengi við nauðsyn þess að ganga frá því sex ár fram í tímann að tilteknir aðilar hafi þessa veiðiheimild. Eru sterk rök fyrir því? Hver var fyrirsjáanleikinn þegar menn byrjuðu að veiða makríl, þegar hann kom? Var hann einhver? Nei, hann var nú ekki mikill en menn fóru samt, þannig var það og þannig verður það. Ef arðbærir nýtingarmöguleikar skapast grípa menn þau tækifæri, og það þarf engan ægilegan fyrirsjáanleika í lögum um að menn megi það. Ætla menn þá að tryggja með lögum að makríllinn gangi í sama mæli á Íslandsmið næstu sex árin? Er fyrirsjáanleiki þar? Nei, auðvitað ekki, en ég gef nú ekkert alltof mikið fyrir þetta. Og þegar í hlut á ein viðbótar uppsjávarveiðitegund, þar sem menn geta nýtt skip og búnað, sem hvort sem er er til staðar gagnvart öðrum tegundum, þá er nú áhættan engin ósköp. Þá bíða menn bara í voninni um að þeir vinni í happdrættinu ár eftir ár.

Ég vil líka spyrja um framsalið, sem ég staldra mjög við. Hér er ekki bara verið að setja tegund inn í kvótakerfið í aflahlutdeildar- og aflamarkskerfið, heldur er verið að leyfa framsal. Það er mjög stór ákvörðun og við þekkjum alla þá umræðu. Hæstv. ráðherra er eitthvað viðkvæmur fyrir því að menn setji á þetta verðmiða, en er eitthvað að því að velta vöngum yfir því hvaða verðmæti eru í þessu fólgin í ljósi þess að menn selja hér öðrum aðganginn að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar? Það er bara í gangi frjálst framsal. Er ekki þorskkílóið að fara úr 2.200–2.400 kr. þessa dagana? Og ef við tökum nú einhvern lauslega áætlaðan stuðul fyrir makríl, að þrjú kíló af makríl séu jafn verðmæt og eitt kíló af þorski, segjum bara að stuðullinn sé svona 0,3–0,35, þá er það 0,35 sinnum 2.200 kr., segjum það. Það eru þá 770 kr. fyrir kílóið sinnum 150 þúsund tonn, ef það yrði nú veiðin. Það eru 115 milljarðar kr.

Það er ekki flókinn útreikningur. Það þarf ekki einu sinni að hafa hann á blaði, maður getur haft hann í kollinum ef kollurinn er ekki orðinn þeim mun ryðgaðri. Hér er því auðvitað um að ræða mjög háar fjárhæðir. Og það er nokkuð ljóst að menn munu fara að innleysa þetta um leið og framsalið kemur, ekki endilega með því að selja sig út úr greininni, en til dæmis er mjög líklegt að þeir sem eru með einhverja aflareynslu í makríl sem þeir hafa náð sér á undanförnum árum, segjum ísfiskveiðiskipin, muni þá selja þann happafeng, kannski fyrir þorsk. Kannski láta þeir hver þrjú kíló af makríl fyrir eitt kíló af þorski í hlutdeildarkerfinu og eru þá komnir með varanlega kvóta þar og varanlegt endurgjald í staðinn. Þannig mun það nú trúlega gerast.

Ég vil taka fram þó að ég segi þetta hér um frumvarpið almennt, að í því eru síðan önnur ákvæði sem ég tel ágætlega hugsuð. Þar vil ég til dæmis nefna manneldisbónusinn, frumherjabónusinn til þeirra sem sannarlega brutu ísinn og alveg sérstaklega í manneldisvinnslunni, á fyrstu árunum, á ólympísku árunum, þegar veiði var ólympísk, þ.e. þeirra sem unnu makríl til manneldis en tóku ekki þátt í kapphlaupinu um að moka honum í land til bræðslu og til ryðja sér þannig inn í nýtinguna. Ég er sama sinnis og ég var á sínum tíma, enda er vitnað í það í greinargerðinni, að mér finnst að þeir aðilar eigi alveg rétt á leiðréttingu. Ég tel þess vegna að það sé vel og rétt hugsað að einhvers konar uppbót komi þá vegna þeirra ára.

Sömuleiðis um útdeilingarformúlurnar. Auðvitað verður alltaf að finna einhverjar praktískar viðmiðanir sem ganga upp í þeim efnum þegar farið er að reyna að lesa einhverja slíka aflareynslu, ef menn ætla að gera það á annað borð, hvernig á að láta mismunandi veiðiár vega inn í þá reynslu o.s.frv.

Varðandi gjaldið, 10 kr. í viðbót, sem er í öðru frumvarpi að vísu, ofan á almennt veiðigjald, hvernig sem það nú verður, er það auðvitað spor í rétta átt. Það er viðurkenning á því að það sé eðlilegt að menn greiði vel fyrir aðganginn að þessari auðlind og menn geta gert það. Það má alltaf deila um aðferðina við að taka það inn og að sjálfsögðu um upphæðina. En það hefur nú ekki alltaf verið þannig, til dæmis á síðasta kjörtímabili í átökunum um veiðigjöld að menn viðurkenndu að slíkt væri eðlilegt og sanngjarnt. En það má vissulega segja að núverandi stjórnarflokkar, að minnsta kosti ráðherra, sé nú kominn aðeins í áttina, farinn að horfast í augu við að það er ekki ósanngjarnt að menn greiði og þjóðin fái hlutdeild í auðlindarentunni og menn greiði eitthvað fyrir aðganginn.

Varðandi síðan hlutdeild strandveiðiflotans upp á aðeins 5% eða króka- og línuveiðiflotans, er ég mjög efins um að það sé rétt, skynsamlegt eða tímabært að negla það niður og þá svona lítið magn. Þetta er akkúrat sama magnið og sá hópur veiddi í fyrra, ef ég kann rétt að reikna og lesa út úr fylgiskjölum. Aflinn á báta með línu og handfæri var 7.423 tonn í fyrra. Það er nú bara mjög nálægt því að vera 5% af 150 þúsund tonnum, er það ekki, ef það er kvótinn? Já, það er bara mjög nálægt því. Ég sé þá ekki annað en að það eigi að boxa þá fasta í nákvæmlega því. Er það tímabært í ljósi stuttrar reynslu þessa flota hversu stuttan tíma hann hefur haft til að byggja sig upp? Og ef við skoðun aflatölurnar undanfarin ár, hver er þróunin? Úr 180 tonnum 2010, í 300 2011, 1.000 árið 2012, 4.600 árið 2013 og 7.400 árið 2014. Hvaða þróun er það? Það er ljóst að þróunin verður snarbremsuð af þar sem flotinn hefur verið að sækja mjög í sig veðrið og ná tökum á þessum veiðiskap, fjárfesta og byggja sig upp til að geta veitt eins og raun ber vitni.

Ef makríllinn gengur á komandi vertíðum í sama mæli inn á grunnslóð, inn á flóa og firði, eigum við þá ekki að hafa það opið að strandveiðiflotinn verði nýttur í ríkari mæli á vistvænan hátt til að sækja þann fisk? Jú auðvitað. Þess vegna held ég að það gangi ekki að loka þessu svona. Ég er satt best að segja undrandi á því, og legg ég þá til hliðar um sinn deiluna um það hvort fara eigi í að kvótasetja makrílinn, sem ég tel vel að merkja ekki tímabært, en ég hefði viljað aðstoða ráðherra frekar við að skjóta styrkri lagastoð undir tímabundna stjórnun makrílsins áfram einhver ár, sem gæfi svigrúm til að láta þetta þróast án kvótasetningar, án framsals o.s.frv. Þá hefði ég sagt: Tökum í öllu falli frá talsverðan pott sem geymdur er þannig og er ekki úthlutað. Að mínu mati ætti því að lágmarki að taka 10–20% úthlutaðra veiðiheimilda á hverju ári til hliðar, notast eftir atvikum við þessar formúlur í grófum dráttum sem hér eru á ferðinni gagnvart úthlutun á hinu, en síðan mætti geyma þetta og eftir atvikum nota það sem úthlutun ofan á hitt ef ekki var þörf fyrir að nýta það með öðrum hætti, til þess til dæmis að bæta ofan á veiðiheimildir strandveiðiflotans þegar honum gengi vel og gangan á grunnslóð væri mikil o.s.frv., nú eða leigja það út. Auðvitað væri gaman að sjá hvaða skilaboð markaðurinn sendi í gegnum það að einhver hluti þessa væri að minnsta kosti tekinn og leigður út.

Hvers vegna að binda þetta til sex ára og hvers vegna þetta fyrirsjáanleikatal í þeim efnum þegar úthlutunin í almennu fiskveiðistjórninni er árleg? Hún er það, hún er árleg. Það þýðir ekki að það stæðist meðalhóf og sanngirniskröfur að rífa allar þær veiðiheimildir af á einu ári, við vitum það. Þar hafa menn rætt um hvaða fyrningartíma, hvaða meðalhóf þyrfti að sýna í breytingum. En að lögum er úthlutunin árleg, ekki til sex ára, úthlutað er á hverju ári. Auðvitað er því verið að festa þetta með allt öðrum hætti og í lengri tíma inn í framtíðina en gildir almennt í lögunum þó að það eigi sér aðra sögu og þar séu aðrar hefðir.

Hæstv. ráðherra leggur svo til í öðru frumvarpi á þingi að ganga frá veiðigjöldunum í þrjú ár. Af hverju á ekki þá til dæmis að nota sama tímabil fyrir makrílinn? Er það ekki nóg? Ég held að við verðum líka að muna það og hæstv. ráðherra hafa í huga að við erum ekki að ganga frá þessu með neina heildarendurskoðun á lögum á stjórn fiskveiða í höndunum. Hún er læst niðri í skúffu hjá hæstv. ráðherra. Ráðherra gafst upp fyrir andstöðunni í Sjálfstæðisflokknum. Ég segi alveg eins og er: Það veikir mjög rökin fyrir því að vera að binda eitthvað ráðstöfunina á þessari tegund lengra inn í framtíðina. Af hverju á ekki að stjórna þessu tímabundið áfram, skjóta eftir atvikum styrkari lagastoð undir það, þó að ég sé nú ekki óskaplega hræddur við stöðu ríkisins í þeim efnum, eins og ég sagði áðan, og bíða og sjá til hvernig verður svo búið um þessi mál til framtíðar? Það er alveg ljóst að löggjöfin eins og hún er og hefur verið um það hvernig taka skuli á móti nýjum stofnum og byggja upp veiðireynslu í þeim efnum er meingölluð, bæði í lögum um stjórn fiskveiða og í úthafsveiðilögunum. Henni þarf að breyta og var gerð tilraun til þess með frumvarpi um stjórn fiskveiða 2012, sem illu heilli var ekki afgreitt. Það vita nú margir hér í salnum hverjir bera aðallega ábyrgðina á því að (Forseti hringir.) það frumvarp var drepið með málþófi í þinginu.