144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við deilum ekki um að ákvæðið er skýrt í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Og af því að ég hafði ekki tök á því að fara í andsvar við hv. þm. Guðbjart Hannesson sem ræddi um stjórnarskrárákvæðið, er það jafnframt mjög mikilvægt að við klárum það núna í þeirri vinnu sem nú er í gangi. Ég hef lagt á það ríka áherslu að það verði gert. Ég held því að við deilum ekkert um það og við vitum það líka að löggjafinn hefur þar með talsvert mikinn rétt til að fara með og breyta löggjöfinni í kringum þetta, við þekkjum það af reynslunni.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á smábátana og taldi að ekki væri verið að gera mjög mikið í þeim málum. Ég er á öndverðum meiði. Ég tel að við gerum vel við línu- og handfærabátana. Í upphafskvótanum á síðastliðnu ári voru þeir innan við 4%, 3,6%, enduðu hins vegar í (Forseti hringir.) 4,7%. Hér stefnum við í 5%. Og þar fyrir utan heldur ríkið auðvitað á 5,3% til atvinnu-, félagslegra og byggðalegra athafna sem við erum að skoða núna varðandi þingsályktunartillöguna. (Forseti hringir.)