144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég reyni að svara þessu örstutt. Þetta er auðvitað þannig að þegar makríllinn fer að gera vart við sig á Íslandsmiðunum er þeim veiðum ekkert stýrt. Ísland er ekki aðili að alþjóðlegum samningum um makrílinn, okkur hafði reyndar verið neitað að koma að því borði, og þá eru engar takmarkanir. Öll skip á íslenskum fánum með veiðileyfi gátu í sjálfu sér farið og veitt makríl.

Veiðarnar hefjast að uppistöðu til sem meðafli með síldveiðum. Og þá eru það stóru vel útbúnu uppsjávarveiðiskipin, nóta- og flottrollsskipin sem veiða makríl. Svo vex gengdin hingað og að því kemur að menn fara að sækja í makrílinn beint og það eru áfram aðallega þau skip sem gera það.

Svo kárnar gamanið, hann kemur líka inn á grunnslóðina og þá sjá menn að það er hægt að veiða hann á færi og línu á litlum bátum, ísfiskbátum eða frystiskipum sem ekki voru sérhæfð í uppsjávarveiðum. Svarið er því í raun bæði já og nei. Auðvitað eru uppsjávarveiðiskipin, stóru sérhæfðu nóta- og togveiðiskipin, öflugust í þeim efnum. Þau eru best útbúin, þau eru með kældar lestir o.s.frv., gera mikið úr hráefninu. Og auðvitað eru þeir fumherjarnir. Þeir fóru til þessara veiða, þeir byrja og þeir afla landinu þar með veiðireynslu í samningum við önnur ríki o.s.frv. Það er því eðlilegt að horft sé til stöðu þeirra. En þegar í ljós kemur að önnur skip geta veitt ef þau fá það held ég að það hafi verið hárrétt ákvörðun í tíð síðustu ríkisstjórnar að loka þetta ekki eingöngu af hjá þeim sem byrjuðu heldur gefa öðrum færi á því að spreyta sig í þessum veiðum. Ég held að sá tími sé ekki enn liðinn, að tímabært sé að loka því, og það eigi að leyfa þessu að þróast eitthvað áfram, líka vegna þess að við vitum ekki hvernig makríllinn mun hegða sér á komandi árum.

Ef hann hverfur af grunnslóðinni verða einu skipin sem verða nógu öflug til að sækja hann í úthafið náttúrlega stóru skipin.