144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

¥stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög góð spurning hjá hv. þingmanni og eiginlega skemmtilega orðuð. Hvert er andlag skaðabótakröfunnar? Hvert er andlag skaðabótakröfunnar hjá einu af stóru uppsjávarveiðifyrirtækjum landsins, sem fékk makrílinn sem hreina búbót inn í rekstur sinn á árunum 2007, 2008, 2009 og fram að þessu, og hefur auðvitað haft gríðarlegan afkomubata af því að hafa fengið að veiða hann? Hvert er andlag skaðabótakröfunnar? Er þá allt í einu íslenska ríkið fyrir hönd íslensku þjóðarinnar samt einhvern veginn orðið skaðabótaskylt gagnvart því fyrirtæki? Var svona illa með það farið?

Það er dálítið kostulegt að einhver skuli hafa geð í sér til þess að leita til dómstóla á þeim forsendum, ég verð að segja alveg eins og er. Ég vona svo sannarlega að það tapist og íslenska ríkið sé ekki í hættu í þeim efnum.

Auðvitað var skaðinn enginn, miskinn enginn. Það sem þetta snýst um er að menn hafi svo í viðbót við þetta átt að fá veiðiheimildirnar varanlega sem hlutdeild með frjálsum rétti til framsals, þannig að þeir gætu daginn eftir slíka úthlutun selt það einhverjum öðrum. (Forseti hringir.) Krafan snýst um það, og ég kalla það bara græðgi á mannamáli.