144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Frumvarpið sem hér er til umræðu felur í sér stórtíðindi, það eru stórtíðindi í stjórnmálum á Íslandi þegar það er lagt fram því hér er verið að leggja til að taka inn í fiskveiðistjórnarkerfið og kvótasetja fiskstofn sem ekki hefur fyrr verið kvótasettur. Það er vitað að fiskveiðistjórnarkerfið eins og það er er ein umdeildasta löggjöf sem gildir í landinu. Það er löggjöf sem hefur breytt íslensku þjóðfélagi gífurlega. Vissulega eru ákveðin áhrif fiskveiðistjórnarlaganna þau að nú er þessi mikilvægi atvinnuvegur sem betur fer rekinn með hagnaði og rekinn mjög vel og skilar miklum verðmætum, en hann skilar ekki eiganda auðlindarinnar verðmætum, hann skilar þeim mestum verðmætum sem fengu auðlindina afhenta án þess að þurfa greiða nokkuð fyrir hana.

Nú stöndum við hér með makríl sem á undanförnum árum hefur verið, eins og einhver nefndi, eins og lottóvinningur fyrir íslenskan efnahag. Ég get svo sem tekið undir það, en nú ætlum við að afhenda hann og ekki til eins árs eins og gert var. Það er auðvitað rétt sem hér hefur komið fram að sá kvóti sem úthlutað hefur verið verður aldrei í einni andrá tekinn af þeim sem fara með hann, en hins vegar er það þannig að á pappír er úthlutað til eins árs. Nú kemur þessi nýi stofn inn og er kvótasettur, og það á að vera til sex ára. Ekki nóg með það, heldur framlengjast þessi sex ár alltaf ef lögunum er ekki breytt. Það er því ekki þannig að ef kvótinn er í fyrsta skipti settur á árið 2016 renni hann út árið 2022, heldur framlengist hann alltaf nema lögunum sé breytt. Það er gífurleg breyting frá því sem gildir í dag. Gífurleg breyting. Kannski mætti vera dramatískur og segja: Hérna er verið að stíga skrefið, sýna það að kvótinn er ekki lengur sameign þjóðarinnar heldur koma inn einkaréttarleg áhrif. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að spornað verði við því að þessi lög verði sett eins og gert er ráð fyrir hér.

Virðulegi forseti. Í hvaða andrúmi ef svo má segja er þetta lagafrumvarp lagt fyrir? Jú, það er ófremdarástand í þjóðfélaginu. BHM er í verkfalli. Það vofa yfir verkföll á almennum vinnumarkaði. Landspítalinn, vegna verkfalls BHM, er rekinn á 40% afköstum. Fólk getur ekki þinglýst samningum ef það vill selja eða kaupa hús, þannig að verkfall BHM veldur miklum truflunum á atvinnulífinu. Verkföll eru yfirvofandi á almennum markaði og menn jesúsa sig yfir því að krafist er 300 þús. kr. lágmarkslauna. Á sama tíma kemur HB Grandi, sem er nú einmitt afkvæmi þeirra laga sem hér eru undir, stjórn HB Granda, og hækkar við sig launin um 33%. Ríkisstjórnin sem leggur þetta til hefur afnumið auðlegðarskatt og hún hefur lækkað veiðigjald, hún hefur hækkað matarskatt og fólk þarf að borga meira úr eigin vasa en áður ef það verður veikt. Þeir sem hafa lægstu launin eru sagðir bera ábyrgð á stöðugleikanum. Og meðan á öllu þessu stendur ætla menn að leggja þetta til, að færa 115–150 milljarða yfir til þeirra sem eiga útgerðirnar í landinu. Þetta er náttúrlega alveg yfirgengilegt, virðulegi forseti.

Ég ætla ekki að ræða tæknilegar útfærslur í frumvarpinu vegna þess að ég held að það skipti miklu, miklu meira máli að skoða það í stóra samhenginu og að skoða á þann hátt að við áttum okkur á því að ástandið í þjóðfélaginu krefst kerfisbreytingar. Eina leiðin til þess að fólk í þjóðfélaginu, fólk á launamarkaði, fólkið í BHM sem núna er í verkfalli, geti fengið kröfum sínum fullnægt er að það verði kerfisbreyting í þjóðfélaginu. Og til þess að breyta kerfinu þá þarf einmitt, virðulegi forseti, að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Það þarf að breyta hlutföllunum í landinu, skipta gæðum landsins öðruvísi en gert hefur verið hingað til. Og hér erum við einmitt með löggjöf um undirstöðuatvinnuveginn þar sem á að fara sömu gömlu leiðina og jafnvel verri en farin hefur verið fyrr. Þetta er yfirgengilegt, virðulegi forseti. Þetta er algjörlega yfirgengilegt.

Eina hugsanlega leiðin til að sætta sig við að makríllinn verði kvótasettur er sú sem sumir þingmenn hafa stungið hér upp á, að hann fari á frjálsan markað, að menn bjóði í kvótann, útgerðarfélög bjóði í kvótann. Þá mundi líka, virðulegi forseti, eitt af ágreiningsefnum þjóðfélagsins leysast með því að útgerðin sjálf ákveði veiðigjöldin, útgerðin sjálf ákveði hve mikið hún gæti borgað og væri tilbúin að borga fyrir að veiða fiskinn í sjónum. Þetta held ég að sé eina leiðin til þess að einhver minnsta sanngirni verði í því hvernig það skref verður stigið að taka makrílinn inn í kvótakerfið.

Þá segja menn: Það er ekki hægt. Þar sem uppboðskerfi hafa verið reynd hafa þau leitt til samþjöppunar á markaði. En ræðurnar sem hafa verið haldnar hér á undan þessari tölu minni snúast einmitt um að það kerfi sem er verið að innleiða hér mun leiða til samþjöppunar á markaði vegna þess að þeir sem fá kvótann, smábátarnir, munu trúlega innleysa fljótlega þann hagnað sem þeir hafa af því að fá kvótann og selja hann til annarra. Ísfiskskipin og frystitogararnir eru líka taldir líklegir til að skipta á aflaheimildum. Það er samþjöppun í kerfinu samkvæmt þessu frumvarpi. Og af hverju er þá hitt svona miklu verra?

Hún var fróðleg, fannst mér, ræða hv. þm. Jóns Gunnarssonar í morgun, formanns atvinnuveganefndar, þar sem hann dásamaði markaðskerfið og framsalið í sjávarútveginum sem hefði stuðlað að mikilli hagkvæmni í sjávarútveginum. Og ég var honum sammála. Markaðskerfið stuðlar að hagkvæmni. En hann vill hafa það alls staðar nema hjá okkur sem eigum auðlindina. Það má ekki vera markaðskerfi í upphafi máls. Það má bara vera markaðskerfi þar sem þeir hagsmunahópar sem vissulega styðja þá stjórnmálaflokka sem hér eru við völd og við höfum séð af fréttum að greiða í kosningasjóði þeirra, þeir eiga græða en ekki við, ekki þjóðin sem á auðlindina. Það var fróðlegt og upplýsandi að hlusta á lofgjörð hv. þingmanns um það hvernig einkafyrirtæki, einkaaðilar hafa hagnast og grætt og komið vel út úr kvótakerfinu meðan þjóðin fær ekki neitt og meðan ekki er hægt að borga fólkinu í landinu almennilegt kaup. Og menn jesúsa sig yfir því að einhverjir vilji fá 300 þús. kr. á mánuði. Þetta er algjörlega yfirgengilegt, virðulegi forseti.

Ég er viss um að einhverjir segja: Þetta er nú ekki málefnaleg ræða. Eigum við ekki að ræða um það að smábátarnir fá 5% og einhverjir aðrir? En þetta er það sem skiptir máli, virðulegi forseti, að skoða þetta frumvarp sem hér er lagt fram í hinu stóra samhengi, út frá hinni miklu misskiptingu sem er í landinu og því að hér þarf að breyta kerfinu.