144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég byrja fyrst á því síðasta sem hv. þingmaður nefndi um hugsanlegar skaðabætur: Ef makríllinn fer nú bara aftur í burtu, hann er nú tiltölulega nýkominn, þyrfti ríkið að greiða skaðabætur? Jú, það getur vel verið að hætta sé á því. En samt sem áður held ég að ríkið geti ekki borið ábyrgð á aflabresti.

Á hinn bóginn er ég alveg sammála þingmanninum í því sem mér fannst hún vera að tala um. Ég mæli mjög eindregið fyrir markaðslausn í því hverjir fá kvótann og hver upphæð veiðigjaldsins er. En ég er alveg sammála því að það ætti ekki allt að vera í einum potti. Ég er ekki nákvæmlega með uppskriftina að því hvernig ætti að gera það.

Í dag var talað um hvort það ætti að vera byggðakvóti, en það er hægt að setja kvótann á markað án þess að það sé allt í einum potti. Við gætum haft ákveðnar reglur um að þessi stærð af bátum geti boðið í svona mikið eða þetta landsvæði. Það er hægt að hafa alls konar krúsidúllur þar í kring. Ef menn skoða veiðigjaldafrumvarpið, sem verður til umræðu hér á eftir, þá eru þvílíkar flækjur í því hvernig það er fundið út og hvernig á að reikna það. Ég held að það væri barnaleikur að búa til eitthvert kerfi um það hvernig mætti bjóða kvótann upp. (Forseti hringir.)

Við skulum líka vera alveg klár á því, virðulegi forseti, að það er mikil reynsla af því hér að bjóða upp fisk þó að hann sé ekki í sjónum.