144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu sem tekur einmitt utan um málið í heild sinni. Mig langaði jafnvel að færa málið enn lengra út úr tölfræði og ártölum yfir í að spyrja þingmanninn hvort hún sé ekki sammála mér um að langskynsamlegast væri að klára og koma í gegnum Alþingi auðlindaákvæði í nýrri stjórnarskrá áður en við förum að hræra í löggjöf, sem getur þýtt skaðabótakröfur á ríkið, ef þetta verður að lögum, áður en við breytum stjórnarskránni.

Nú vitum við að það þarf að staðfesta veiðigjöld og breyta því og ég spyr hvort ekki væri hægt að taka lögin frá því síðast og koma þeim í gegnum þingið í staðinn fyrir að taka allt sem þetta inniber með; þetta er miklu umfangsmeira og gefur ákveðnum fyrirtækjum jafnvel tækifæri til að eignast kvótann til frambúðar.

Það er svo auðvelt að flækja sig í þessu. Það er einfaldlega þannig að allt of margir geta ekki og vilja ekki setja sig inn í þessi kvótamál, samt eru þetta rosalega miklir hagsmunir. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé skynsamlegra að við tryggjum auðlindaákvæðið í stjórnarskrá og breytum svo lögunum.