144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þar erum við algjörlega sammála, ég og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir Að sjálfsögðu þarf auðlindaákvæðið að vera þannig að það skili sínu markmiði, að ekki sé hægt að hafa af þjóðinni það sem á að skapa þær forsendur að hægt sé að búa á þessu landi og líka þær forsendur að við pössum upp á auðlindina okkar. Það er allt of algengt að hugsað sé til skamms tíma þegar einhverjir herrar ákveða að helmingaskipta lífsgæðum þjóðarinnar til vina og vandamanna.

En ég hef svo sem ekkert margar spurningar í viðbót. Mér finnst þingmaðurinn hitta naglann á höfuðið í ræðu sinni. Ég vildi óska þess að hér væri einhver að hlusta á ræðu hv. þingmanns, til dæmis ráðherrann sem fer með þennan málaflokk.