144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:28]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir prýðilega ræðu, hún fór yfir flest sem skiptir máli í frumvarpinu og hefur það reyndar verið rætt vel hér í mörgum prýðisræðum. Kvótasetningin er, það fór hæstv. ráðherra yfir, í fullu samræmi við stjórnarsáttmálann og landslög og í takt við það álit sem umboðsmaður gaf 2010.

Það var einkum tvennt sem ég hjó eftir í ræðu hv. þingmanns, annars vegar sá kvóti sem hugsaður er til smábáta — hún kom inn á að þetta væru til að mynda um 14% heildarafla í Noregi, en hér væri þetta nokkurn veginn það sem veiddist á síðasta ári. Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér að væri eðlilegt að væri úthlutað til smábátaútgerðarinnar?

Hv. þingmaður kom síðan inn á stórútgerðina, að hún hefði hagnast gríðarlega á veiðum undanfarin missiri og kannski hefði skapast svigrúm til að hún greiði meira til samfélagsins. Ég hugsa að við ræðum það bara hér í seinna andsvari.