144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:50]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir skelegga ræðu. Ekki ætla ég að deila við hv. þingmann um stjórnarskrána og eignarrétt þjóðarinnar á auðlindinni okkar.

Hér hefur verið rætt um að við séum að fara með makrílinn í það kerfi sem er til staðar, kvótakerfi, að kvótasetja makrílinn. Fram kom skemmtilegt hugtak í ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar, að tromprökin í þeirri umræðu væri hagkvæmni. Ég nefni það hér vegna þess að það er lykilhugtakið. Það er nýtingin og nýting framleiðslutækjanna, skipanna, veiðarfæranna, þekkingar og reynslu sem sjómenn og fiskvinnslufólk býr yfir. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom hér inn á laun og kjör þessa fólks og ég er honum hjartanlega sammála, við þurfum að gera gangskör að því að bæta þau kjör.

Ég ætla að skilja hér eftir spurningu í fyrra andsvari sem snýr að þessu: Finnst hv. þingmanni ekki erfitt að færa rök fyrir því, miðað við þann uppgang sem hefur verið í greininni og afkomu fyrirtækja, að vera að kasta þeim árangri fyrir róða? Við aukum óvissuna um þann lagaramma sem við þurfum að búa greininni ef við förum í eitthvert annað kerfi, með því aukum við óvissuna.