144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög erfið spurning, hvar skerast þessar línur, hagkvæmni stærðarinnar annars vegar og mörg smáfyrirtæki í byggðum landsins hins vegar. Menn hafa talað um vistvænar veiðar. Menn hafa talað um veiðar smábáta sem skili góðum afla. Það var vitnað í smábátaveiðar á makríl í Noregi, 14–17% sem þeir fá í sinn hlut. Þetta eru hlutir sem er mjög erfitt að alhæfa um.

Hagkvæmni stærðarinnar getur líka gengið út í öfgar, þannig að sá hagur, sá arður sem við höfum af útgerðinni, sé fluttur út fyrir okkar kerfi. Við sjáum stóru útgerðirnar á Íslandi sem eru farnar að hasla sér völl út um víða veröld og flytja arðinn af okkar sameiginlegu auðlind út úr okkar hagkerfi. Þannig að þetta er spurning um hvar þessar línur skerast.

Ég hef verið því fylgjandi að stuðla að fjölbreytni í sjávarútvegi, vil hafa mörg fyrirtæki, ég vil hafa þau sem víðast í byggðum landsins og óttast þá miklu samþjöppun sem er að verða og virðist vera að leiða til þess að menn eru að taka þennan arð, alla vega að einhverju leyti, og flytja hann út úr okkar hagkerfi.