144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[17:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Við útfærslu frumvarpsins, vegna þeirra tæknilegu breytinga sem á því urðu, að breyta úr tveimur gjöldum í eitt og taka upp staðgreiðslu o.fl., var það mat sérfræðinga ráðuneytisins að þetta væri sambærilegt. Við höfum síðan verið að skoða það og það er margt sem bendir til þess að afslátturinn sé auðvitað meiri fyrir þá sem borga minna. En ef það reynist svo þá er ég meira en tilbúinn til að skoða fyrirkomulagið. Upphæðin var 250 þús. kr. í fyrra og ég tel að við þurfum að eyða aðeins tíma með atvinnuveganefnd og ráðuneytinu til að fara yfir það hvað sé skynsamlegt í þessu. Það var ekki ætlun mín að breyta með nokkrum hætti frá því sem er á yfirstandandi ári, afslátturinn ætti að koma nákvæmlega eins út. Það er margt sem bendir til þess að hann sé að einhverju leyti lægri og ég er meira en tilbúinn til að skoða það og þakka fyrir að fá tækifæri til þess að minnast á það hér.