144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað gífurlegur munur á þeirri aðferðafræði sem verið er að beita núna og þeirri sem áður var notuð. Ég held að flestir kalli það hálfgerða skattheimtu sem þarna er á ferðinni. Við vitum alveg að það er miklu auðveldara að setja ýmsan kostnað á áður en EBT kemur á endanum, sem hreinn hagnaður þá stendur eftir. Það hefur útgerðin verið að gera í gegnum árin varðandi tekjuskatt sinn og hefur í gegnum tíðina ekki greitt mikinn tekjuskatt vegna þess að hún hefur átt auðvelt með að fela þetta inni í kostnaði.

Mig minnir að það hafi komið út upplýsingar um það að í tíu ár fyrir hrun hafi útgerð í landinu greitt að meðaltali um 1 milljarð í tekjuskatt ári. Ég þori ekki að sverja fyrir það en mig minnir samt að það hafi verið að meðaltali 1 milljarður á ársgrundvelli sem útgerðin greiddi í tíu ár fyrir hrun. Ég hrædd um að það hafi áhrif á þessa aðferðafræði að menn eigi auðveldara með að komast hjá því að greiða eðlilega rentu til samfélagsins vegna þess að þetta er orðið ígildi skatts.