144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu í raun fagna því sem mér fannst liggja í málflutningi hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, því sem mér fannst vera ákveðin hugarfarsbreyting gagnvart þessum veiðigjöldum. Hún er farin að átta sig á því, sem er breyting frá síðasta kjörtímabili, að ákveðnar útgerðir bera jafnvel ekki þau veiðigjöld sem eru lögð til í þessu frumvarpi. Ég vil rifja það upp, til þess að það sé til skráð hér, að ef stefna stjórnvalda á síðasta kjörtímabili hefði gengið eftir væru veiðigjöldin í dag sennilega orðin dálítið á þriðja tug milljarða. Og þótt það megi að mati hv. þingmanns auka álagningu á stóru útgerðirnar og uppsjávarfyrirtækin mundi nú halla ansi miklu þarna.

Mönnum verður tíðrætt hér um arðgreiðslur í sjávarútvegi og ég vil spyrja hv. þingmann aðeins út í það. Það er gjarnan talað um Granda í því samhengi. Það er vegna þess að Grandi er fyrirtæki sem er á markaði sem almenningur getur fjárfest í og það eru einhverjar þúsundir einstaklinga sem hafa fjárfest í fyrirtækinu auk lífeyrissjóðanna, þess vegna eru þær tölur allar uppi á borðum hjá því fyrirtæki. Það voru greiddir út, ef ég man rétt, 2,7 milljarðar núna og það er talað um að það sé mjög ofgert. Ég vil spyrja hv. þingmann: Ef hún væri ein af þeim þúsundum Íslendinga og lífeyrissjóðakerfi okkar hefði lagt einhverja fjármuni í Granda, keypt sér hlutabréf, hvað hefði hún talið eðlilegt og hverjar væru væntingar hennar um það að fá í ávöxtun af þeim hlutafjárkaupum sínum, hverju það mundi skila í arðgreiðslu til hennar að liðnu ári (Forseti hringir.) í formi vaxta af þessari fjárfestingu sinni?