144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Menn geta auðvitað alltaf deilt um það hversu mikinn arð á að greiða út úr þessari grein. Ég tel að arðurinn til samfélagsins og þjóðarinnar gangi fyrir, frekar en til þeirra hluthafa sem eiga hlutabréf í þeim fyrirtækjum sem eiga í hlut og stórfyrirtækjum eins og Granda, sem hefur verið mikið til umræðu og borgar tvöfalt meira í arð. Ég ætla ekki að úttala mig um það hvaða kröfu ég sem einstaklingur mundi gera til arðgreiðslna út úr einhverju fyrirtæki. Við vitum að arðgreiðslur eru með ýmsum hætti. Þær geta verið ávöxtunarkrafa upp á 3,5% og upp í 10%. Ég tel alveg út í hött að fyrirtæki í sjávarútvegi greiði svo mikinn arð til hluthafa sinna meðan þeir geta ekki greitt fiskvinnslufólki sómasamleg laun og gefa þeim íspinna til hugarhægðar, og geta svo ekki greitt hærri veiðigjöld en um er að ræða án þess að kveinka sér undan því. Ég er þannig stemmd að ég sætti mig ekki við það sem hluti af þjóðinni að ekki séu greidd hærri veiðigjöld.

Varðandi hugarfarsbreytingu mína í þessum málum vil ég taka skýrt fram að við lögðum áherslu á að það væru afslættir, sem við töluðum um að miða við áframhaldandi reynslu á þessa minni báta, og að við mundum auka og hækka frítekjumarkið. Núna hefur þessi ríkisstjórn ákveðið að nánast þurrka það út. Við getum mætt minni útgerðum með því að hækka frítekjumarkið verulega.