144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka að mér það hlutverk hér að vera forðagæslumaður Granda hf., það verða aðrir að gera. Ég er kosin til þess að gæta hagsmuna almennings, (Gripið fram í.) þess vegna ver ég það að fyrirtækið greiði fyrst sanngjörn veiðigjöld, greiði sanngjörn laun til starfsfólks síns í landvinnslu og greiði sanngjarnan tekjuskatt til samfélagsins. (Gripið fram í.) Síðan þegar menn sjá hvað stendur eftir geta þeir notað þann umframhagnað eins og þeir vilja, hvort sem það er að veiða hval og safna honum upp í frystigáma eða gera eitthvað annað. Það er bara þannig. En mér finnst það ekki vera hlutverk okkar kjörinna alþingismanna að hafa áhyggjur af því hvað fyrirtækin greiða í arð til hluthafa þessara fyrirtækja. Það er ekki okkar hlutverk að blanda okkur í það. Þjóðarhagsmunir (Forseti hringir.) ganga fyrir og það að þjóðin fái arð af auðlind sinni.