144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það sem ég set fyrst og fremst út á þetta frumvarp er að ég tel að í því sé fólgið fráhvarf frá þeirri hugmyndafræði sem eigi að byggja gjaldtöku vegna afnota af sameiginlegri, takmarkaðri auðlind á, þ.e. nálgunina að menn ætli að fanga sérstaklega þá rentu eða þann umframhagnað sem sprettur af því að fá aðganginn að takmarkaðri auðlind sem býr til verðmæti í sjálfu sér eins og dæmin sanna. Því hefur greinin sjálf fyrir löngu svarað hversu verðmætur aðgangurinn að þessum hlunnindum er með háum verðum fyrir réttinn til að sækja aflann í sjó.

Ég held að hv. þm. Jón Gunnarsson verði aðeins að staldra við áður en hann telur sig einan og óstuddan umborinn þess að afskrifa með öllu hugmyndafræðina um auðlindarentu og auðlindarentunálgun. Hann er tiltölulega einmana í þeim hópi, hygg ég, því að ég hef fylgst með þróun skattaréttarins bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og þykist vita að sú hugsun sé orðin mjög föst í sessi og viðurkennd af öllum helstu alþjóðastofnunum og aðilum sem um þetta fjalla, enda má lesa um það í ábendingum og umfjöllun bæði OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri aðila. Ísland hefur fengið hvatningar frá þeim aðilum til þess að halda áfram á þeirri braut að þróa skattarétt sinn í átt til nútímaviðhorfa um auðlindaskattlagningu, samanber það að við erum mjög auðlindagrundað hagkerfi. Þess vegna skiptir miklu máli fyrir Ísland sem er ríkt af náttúruauðlindum að við þróum okkur að þessu leyti. Þetta þætti skrýtin ræða á norska Stórþinginu, hugsa ég, sem hv. þm. Jón Gunnarsson flutti. Ætli þeim þætti þetta ekki skrýtið miðað við þær aðferðir sem þar eru notaðar t.d. til að fanga auðlindarentuna í olíuiðnaði og í orkuiðnaði og annars staðar? Auðvitað stenst þessi málflutningur ekki og nær ekki neinu máli.

Ég tel mjög gagnrýnivert og er auðvitað ósáttur við það, og kemur kannski ekkert á óvart því að mér er málið skylt, að nú á að henda þessari hugsun algjörlega út úr löggjöf um veiðigjöld og henda II. kafla laganna í burtu, sem þó er enn byggt á. Má ég minna á hversu fátæklega var um þetta búið fram að því að loksins voru sett lög um veiðigjöld. Þá var þetta ein grein í lögum um stjórn fiskveiða, ákaflega fátæklegur rammi og óburðug umgjörð um að nálgast það að þessi mikilvæga auðlind þjóðarinnar væri meðhöndluð sem slík að þessu leyti.

Ég tel það líka mistök að hverfa yfir í eitt einfalt gjald í staðinn fyrir að byggja áfram á einhvers konar grunngjaldi og viðbótarafkomutengdu gjaldi. Hér er að vísu farin sú leið að setja gólf í þetta eina gjald upp á 5,50 kr. á þorskígildiskílóið til þess að þetta geti ekki farið niður úr öllu valdi ef reikniverkið skyldi nú gefa þá útkomu. En ég er ekki viss um að með þessu sé verið að einfalda málin jafn mikið og aðstandendur málsins hér vilja vera láta. Jú, jú, það er ein aðferð sem vel kemur til greina að fara með þrönga skilgreiningu á hreinan hagnað, EBT, eins og hér er gert, og nota síðan eitthvert hlutfall af því sem grunn fyrir veiðigjöldin. En hver er munurinn í sjálfu sér og á hinu að nota framlegðina, EBIT, samkvæmt viðurkenndri árgreiðsluaðferð og leysa jafnframt þau tæknilegu mál sem vissulega þurfti að takast á við? Það er gert hér að mér sýnist ágætlega, t.d. með heimildum fyrir skattinn til að skila gögnum til Fiskistofu þannig að ekki þurfi að röfla um það að þrátt fyrir venjur skattsins um að vera ekki að dreifa gögnum skuli hann í þessu tilviki í þágu stjórnsýslunnar og skattlagningarinnar skila þeim til Fiskistofu. Þarna voru vandamál sem komu upp á árinu 2012, sem við þekkjum, og það var nákvæmlega eins hægt að leysa þau með því að skikka menn til þess að vinna saman á grundvelli þeirrar aðferðar eins og þessarar. Árgreiðsluaðferðin er mjög viðurkennd aðferð, þ.e. að taka fjármunamyndunina og draga síðan frá henni ávöxtun á fjármuni, bundna í greininni, með svokallaðri árgreiðslu. Hagstofan hefur um áralangt bil notað 6% í löggjöfinni eins og hún stóð, og stendur reyndar enn þangað til henni verður breytt, og var miðað við ríkulega ávöxtun, og þá stendur eftir framlegð eða renta sem er andlag gjaldtökunnar. Að sjálfsögðu mátti nákvæmlega eins brjóta það niður á einstakar tegundir og þar fram eftir götunum.

Í öðru lagi vil ég nefna umræðuna sem hefur lengi verið fyrirferðarmikil og var alltaf frá árinu 2012, að gjaldtakan, ef hún væri ekki í grunninn allt of há og mikil, væri alla vega of íþyngjandi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Og það er vissulega rétt. Menn horfðust í augu við það þegar verið var að undirbúa löggjöfina á sínum tíma að af tvennum ástæðum þyrfti væntanlega sérreglur til. Í öðru tilviki kom frumvarpið þannig fram að frítekjumark var fyrir minnstu aðilana. Síðan var verið að vinna með gögn um skuldsettar útgerðir vegna nýlegra aflaheimilda og í góðu samstarfi við þingið voru sett inn ákvæði um að þau fengju vissan afslátt á tilteknum afskriftartíma þessara nýlegu fjárfestinga. Hæstv. ráðherra leggur hér til að hrófla ekki við því og metur það svo að upphafleg áætlun um fimm ára tíma eða hvað það var dugi til í þeim efnum, og ég hygg að hann fari nærri um það.

Þá er það kostulega hvað þeir gera, hinir sömu aðilar og mest tala um að þetta sé sérstaklega íþyngjandi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í greininni og hætta á því að það leiði til aukinnar samþjöppunar. Ef þetta er of íþyngjandi fyrir þau, hvað gera þeir í tíð núverandi ríkisstjórnar? Þeir breyta og gera nánast að engu afsláttinn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, það er nefnilega veruleikinn. Upphafleg regla um að fyrstu 30 tonnin væru án greiðslu og næstu 70 greidd að hálfu gjaldi er mun ríkulegra frítekjumark en sett var í lög fyrir yfirstandandi ár, svo maður tali nú ekki um það sem hér er lagt til. Og ef ég heyrði rétt þá vildi sjávarútvegsráðherra meina að hugsunin hefði verið að hrófla ekki við þessum afslætti, að hann yrði svipaður í verðmætum til aðilanna.

Að hvaða niðurstöðu kemst fjármálaráðuneytið í sinni kostnaðarumsögn? Já, það er væntanlega nóg að lesa það. Þar segir einfaldlega að í frumvarpinu sé lögð til þrenging á svonefndu frítekjumarki þannig að í stað þess að allir greiðendur veiðigjalds njóti 250 þús. kr. afsláttar, sem kom í staðinn fyrir ókeypis tonnin í eldri útgáfu, fái þeir sem greiða innan við 1 millj. kr. í veiðigjöld 100 þús. kr. endurgreiðslu. Og það metur fjármálaráðuneytið að kosti 40–50 milljónir. Og hvernig geta 40–50 milljónir ekki verið minna en 250 og miklu minna en ókeypis fyrstu 30 tonnin og á hálfu verði næstu 70? Ef ég man rétt var verið að miða við að kostnaðurinn í þessum skilningi, tapaðar tekjur af veiðigjöldum, væri 400–500 milljónir vegna þeirrar reglu. Og breytingartillaga sem minni hlutinn flutti vorið 2013 hefði rýmkað þau mörk þannig að kostnaðurinn hefði kannski farið í 600–700 milljónir.

Ég spyr því: Eru menn að tala í alvöru þegar þeir segjast hafa áhyggjur af því að þetta kunni að vera dálítið þungt fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki eða ekki? Menn gera hið gagnstæða trekk í trekk. Þetta kemur ekki heim og saman. Og ég er þeirrar skoðunar að nánast sé búið að sökkva frítekjumarkinu algjörlega þannig að það er að verða hlægilegt með þessum ráðstöfunum. Það eru góð og gild rök fyrir því að hafa einingaafslátt, bæði vegna þess að viss fastur kostnaður fylgir tiltekinni hverri einingu í útgerð, sem er að nokkru leyti óháður stærð hennar, og að sjálfsögðu er hann hlutfallslega miklu þyngri eftir því sem umsvifin eru minni og tekjurnar minni. Í öðru lagi er hagkvæmni stærðarinnar væntanlega að einhverju leyti til staðar, og þá er eðlilegt að tillit sé tekið til slíks með því að frítekjumarkið eða afslátturinn sé útfærður þannig að hann gagnist litlum og meðalstórum fyrirtækjum og deyi ekki út fyrr en komið er upp í talsvert stærri fyrirtæki. Þessu er handhægt að breyta.

Það er alveg ljóst að ef menn mæta ekki þessum sjónarmiðum með sæmilega vel útfærðum reglum leiðir það til þess að gjaldtakan í heild sinni verður miklu lægri en hún gæti ella orðið. Þá nota menn það sem skálkaskjól til að hlífa stóru og sterku fyrirtækjunum sem geta vel borgað meira og segja, nei, það má ekki vegna þess að það er of íþyngjandi fyrir þá litlu, í staðinn fyrir að takast á við það og útfæra reglur, jafnvel þrepaskipt kerfi, sem létti greiðslubyrðinni á litlu aðilunum, ef menn vilja hlúa að þeim. Fyrir því eru mjög mörg góð rök. Þeir hafa takmarkaðri aðgang að auðlindinni, eru með minni veiðiheimildir í byggðalegu tilliti, hvað varðar fjölbreytni í greininni o.s.frv.

Hvað getur sjávarútvegurinn greitt? Hver er staðan á honum í dag ef við förum aðeins yfir það? Jú, hún er þannig að sex ár í röð, frá 2009 til og með 2013, þau ár sem við höfum núna gögn um frá Hagstofunni, hefur hreinn hagnaður sjávarútvegsins miðað við árgreiðsluaðferðina, þ.e. framlegðin, að frádreginni 6% ávöxtun fjármuna, verið 18% til rúm 22%. Sex ár í röð. Það hefur leitt til þess að eiginfjárstaða sjávarútvegsins hefur farið úr því að vera neikvæð um 80 milljarða 2009 í að verða jákvæð um 150 milljarða í árslok 2013. Það er sveifla upp á 230 milljarða kr. í eigin fé. Það munar um minna. Enda hefur framlegðin á hverju ári verið frá 72 upp í 80 milljarða kr. Fjármunamyndunin hefur verið svona ríkuleg í greininni. Til viðbótar þessari eiginfjársveiflu upp á 230 milljarða hafa eigendur greitt sér tugi milljarða í arð, og þær fjárhæðir fara vaxandi á hverju einasta ári, þannig að fjármunamyndunin er sem því nemur meiri. Hún er samtala arðgreiðslnanna út úr rekstrinum og uppsöfnunar eigin fjár, ekki satt? Jú.

Það segir mér því enginn, miðað við mína takmörkuðu þekkingu á þessu, neinar draugasögur í myrkri. Greinin hefur mjög mikla greiðslugetu þessi árin og það er vel. Sjávarútvegurinn hefur að fullu endurheimt á þessum tíma eftir höggið 2007–2008 fyrri fjárhagslegan styrk sinn. Eiginfjárhlutfallið í lok árs 2013 var komið í 28,2% úr því að vera neikvætt um 18% árið 2009, þannig að greinin er orðin jafn sterk, ef ekki sterkari, strax í árslok 2013 en hún var á löngu árabili fyrir hrun. Það er gott. Að sjálfsögðu er ánægjulegt að það gangi vel.

Hér nefnir enginn í raun og veru mikilvægi þess og þörfina fyrir það að sjávarútvegurinn leggi sitt af mörkum í þágu uppbyggingar landsins. Auðvitað voru veiðigjaldaáformin liður í því að endurreisa Ísland efnahagslega og létta okkur byrðarnar. Það var alveg ljóst að með batnandi afkomu og sterkari stöðu greinarinnar frá og með árinu 2010, 2011 gat hún lagt sitt af mörkum. Hún átti að gera það og hún á enn að gera það, vegna þess að það sem við fáum ekki frá sjávarútveginum í þessum efnum sækjum við annað með þyngri sköttum á almenning eða veikara velferðarkerfi eða með öðrum slíkum hætti.

Munum þá líka að auðvitað er gengisstigið sú breyta sem fyrir utan aflabrögð og verð á mörkuðum og annað því um líkt skiptir sköpum um afkomu sjávarútvegsins sem útflutningsgreinar. Hann er einhver hreinasta útflutningsgrein sem við eigum, vegna þess að af 270 milljarða tekjum sjávarútvegsins eru um 269 fluttir út, það er þannig. Það er 1% eða svo sem ekki er hreinar útflutningstekjur. Og hann nýtur góðs af því lága gengi sem landsmenn bera á bakinu í formi skerts kaupmáttar gagnvart innfluttri vöru. Og eru þá ekki mörg og gild réttlætissjónarmið fyrir því að hann leggi sitt af mörkum? Jú, ég tel það.

Herra forseti. Að lokum langar mig að fagna niðurstöðu vorralls Hafró. Það gleður mig sérstaklega að lesa niðurstöðurnar þar og að við erum að uppskera ríkulega af þeirri ábyrgð sem við sýndum, jafnvel á botni kreppunnar, að seilast ekki til þess að veiða umfram ráðgjöf. Menn hafa ekki alveg áttað sig á því hversu erfiðar ákvarðanir voru t.d. teknar vorið 2009 á svartasta botni kreppunnar þegar við settum aflaregluna aftur í samband og (Forseti hringir.) hentum áformum fráfarandi ríkisstjórnar um að veiða 30 þús. tonn umfram ráðgjöf. Og er það ekki að skila sér? Jú, ég held það. Við höfum núna nokkurn veginn sannanir fyrir því að ábyrgð okkar (Forseti hringir.) og skuldbinding til sjálfbærrar nýtingar er að skila ríkulegum ávexti.