144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er þeirrar skoðunar að heppilegasta leiðin til að ákvarða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind sé að nýta markaðslögmálin. Aðilar markaðarins búa að jafnaði yfir bestu upplýsingum um virði gæðanna og eru þess vegna væntanlega heppilegastir til að meta þau. Þess vegna tel ég reglulegt útboð veiðiheimilda hentugustu leiðina.

Næstbesta leiðin er að meta út frá bestu fáanlegum upplýsingum umfang auðlindarentunnar í greininni og leggja á hana auðlindagjald, sem er ákveðið hlutfall af auðlindarentunni eins og sú hugsun var sett fram í lögum árið 2012.

Versta leiðin er hins vegar að fela stjórnmálamanninum að ákveða gjaldið, og næstverst að leggja á sérstakan skatt sem ræðst af tekjum hvers fyrirtækis fyrir sig.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um sáttatalið í frumvarpinu og hvort hann telji að þessi leið, að fara eftir tekjum hvers fyrirtækis fyrir sig, ef svo má segja, eins og hugsunin er með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lögum um veiðigjöld, sé líkleg til þess að byggja undir sátt um arðinn sem eigandi auðlindarinnar fær, þ.e. arðinn sem renni til þjóðarinnar, þegar fyrirtækin fara nú að beita skattalegum aðferðum til þess að komast hjá því að greiða að fullu veiðigjöldin. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta þróist?