144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er svona sanngirnis- og sáttahjal, leyfi ég mér að segja, í frumvarpinu, í greinargerðinni. Þar kemur meðal annars fram, með leyfi forseta, „að eigandi nytjastofna á Íslandsmiðum, íslenska þjóðin, eigi sjálfsagðan rétt til sanngjarnrar greiðslu frá þeim sem njóta aðgangs að nytjastofnum sjávar.“ Og einnig þetta: „Eigandi auðlindarinnar, íslenska þjóðin, á rétt á sanngjörnu endurgjaldi fyrir heimildir sem veita aðgang að sjávarauðlindinni.“

Hv. þingmaður fór mjög vel yfir fjármunamyndun í greininni undanfarin ár og að hún hefur verið mikil. Sumir hafa talað um ofsagróða í greininni. Ég vil spyrja hv. þingmann á hvaða grunni svona sanngirnis- og sáttahjal, eins og ég leyfi mér að tala um hér, er byggt þegar ekki er metið með neinum hætti hvers virði auðlindin er. Hvernig getum við vitað að verið sé að greiða sanngjarnt gjald ef ekki er metið hvers virði auðlindin er? Og hvaða sanngirni er í því síðan að klípa örlítinn part af hagnaðinum og láta hann renna til þjóðarinnar en að langstærsti hlutinn renni beint til þeirra sem eru með ódýrt sérleyfi til þess að fénýta auðlind þjóðarinnar?