144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[19:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu, sem hér hefur staðið seinni partinn í dag, um veiðigjöld næstu þriggja ára. Ég ætla að bregðast við nokkru af því sem fram hefur komið í máli þingmanna, einstaka spurningum og því sem ég tel vera ósvarað eða að þurfi aðeins að skýra.

Hv. síðasti ræðumaður talaði mikið um sátt, við hverja hún væri og hvernig hún væri, að þær hugmyndir sem hér kæmu fram væru ekki í anda hennar þingflokks og það er nokkuð til í því. Ég get ekki tekið undir margt í máli þingmannsins en er þó alveg sammála þingmanninum um að um er að ræða gjald fyrir afnot af auðlind í eigu þjóðarinnar. Við höfum verið að móta það og ég heyri jákvæðan hljóm þingmanna í garð þeirra tæknilegu breytinga sem við erum að gera hér, t.d. að taka upp staðgreiðslu, sem ég held að sé mjög nauðsynlegt. Skoðanir eru skiptar um það hvort það að breyta úr almennu gjaldi í sérstakt gjald, í þetta eina gjald, þar sem búið er að tryggja inni gólf, sé sambærilegt. Ég er á þeirri skoðun að þetta sé til einföldunar og sé að því leytinu auðveldara í innheimtu og meðförum en tryggi engu að síður sömu hugsun og var í þessum tveimur gjöldum áður.

Það hefur líka verið farið yfir að frumvarpið sem átti að taka á stjórn fiskveiða til lengri tíma, samningaleiðinni, þar sem hluti af því væri veiðigjöld, þær hugmyndir sem kynntar hefðu verið þingmönnum um það væru með nokkuð öðrum hætti. Það er eðlilegt að þetta frumvarp, sem er til næstu þriggja ára, sé þar af leiðandi nokkuð frábrugðið enda ekki búið að ganga frá samningaleiðinni. Það leiðir af þeim breytingum sem hér koma fram. Það er til dæmis rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að hér væri horfið frá þeirri aðferðafræði sem kom fram í II. kafla laganna, sem hér er lagt til að sé felldur út.

Eins og ég sagði hér, í andsvari fyrr í umræðunni, er að mati allflestra hagfræðinga og sérfróðra manna útilokuð leið að reikna auðlindarentu í þeim stofnum sem við höfum verið með kvóta á í 30 ár og hafa gengið hér kaupum og sölum. Hins vegar eru allir sammála um það, held ég, að í makrílnum, sem er að koma nýr inn, sé sannanleg auðlindarenta til staðar. Þess vegna er þetta viðbótargjald lagt til. Eðlilega hafa ekki komið fram tillögur um hvernig viðbótargjaldið, sem er hér upp á 10 kr., væri betur fundið.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir spurði hvernig fyrirkomulagið væri í nágrannalöndum okkar. Í Grænlandi taka menn 0,95, eða 95 danska aura, tæpa krónu danska, fyrir kíló af makríl. Þar taka menn aftur á móti ekkert fyrir síld þar sem menn eru að hefja tilraunaveiðar á henni og umhverfið er um margt ólíkt því sem er hérlendis. Í Færeyjum er gjaldið nokkurn veginn ein króna á makríl, hálf króna á síld, en síðan eru Færeyingar með viðbótarskatt á tekjuskatt, viðbótarskattþrep. Tekjuskatturinn þar er, fyrirtækjaskatturinn, 18% og ég held að þar sé um 7% viðbótarskattur.

Ef við förum að bera saman gjaldtökuna á Íslandi og í þessum nágrannalöndum okkar þurfum við líka að bera saman útgerðarkostnað. Færeyingar hafa haft frumkvæði í því á norrænum vettvangi að bera saman launakostnað og útgerðarkostnað sjómanna sem er með nokkuð ólíkum hætti. Við þekkjum það til að mynda, í samanburði við grænlenska útgerð, að kostnaður íslensku útgerðarinnar er allnokkru hærri sem meðal annars skilar sér í tekjum í ríkissjóð af ágætum launum sjómanna — og ég vona að allir séu ánægðir með að þeir séu á góðum launum.

Hv. þm. Kristján L. Möller velti fyrir sér breytingunni á skuldalækkuninni, af hverju hún væri hér áformuð 50%. Þegar þessi áform voru sett á laggirnar voru þau áætluð til fimm ára, urðu reyndar til sex ára vegna þess hvernig textinn hljómaði þannig að nú eru tvö ár eftir af því tímabili. Miðað við þau veiðigjöld sem þá voru áformuð stefndu þau í að verða á bilinu 20–25 milljarðar í dag. Sá stofn, af því að hann er vísitölutryggður, lækkunarmöguleiki þeirra sem gætu nýtt sér hann til skuldalækkunar, er kominn í rúma 4 milljarða. En þegar veiðigjöldin eru 10,9 milljarðar og við erum með þessa staðgreiðslu — þess vegna er líka sett þak á skuldalækkun í hverjum mánuði til að menn geti ekki nýtt sér það bara á fyrstu mánuðum og síðan ekki meir, þá er sett þetta 50% og möguleikinn til þess að fullnýta skuldalækkunina er þá upp á 2,2 milljarða, ef ég man rétt, en samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins verður heildarlækkunin á veiðigjöldunum um 1,5 milljarðar. Til viðbótar við frítekjumarkið, eða það er inni í því, þýðir það að veiðigjöldin eru 9,4 milljarðar, en svo bætist við þetta viðbótargjald á makrílinn, sem miðað við sama magn á næsta ári er 1,5 milljarðar.

Það má segja að þessi leið sé einfaldlega farin vegna þess að það er talið eðlilegt og sanngjarnt að skuldalækkunin sé til samræmis við upphæð veiðigjaldanna og er þá sama hlutfall og menn eru nokkuð jafnstæðir eftir sem áður. Ef veiðigjöldin væru vel yfir 20 milljarðar væri auðvitað ekki þörf á því að vera með 50% lækkun á þessum lið. Ég vona að þetta skýri af hverju þetta er með þessum hætti.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og fleiri komu aðeins inn á frítekjumarkið, sem ég var búinn að ræða fyrr í andsvari við hv. þingmenn. Tilgangurinn var sá að þetta yrði með nákvæmlega sama hætti og að mati sérfræðingaskrifstofu ráðuneytisins var talið að svo væri. Við höfum lagst yfir þetta nú síðustu dagana og sannfærst um að svo er ekki. Ég tel mjög eðlilegt að nefndin fari vel yfir það. Það var tilgangurinn að þetta 250 þús. kr. frítekjumark, sem er á yfirstandandi ári, mundi viðhalda sér. Það er reyndar nokkur breyting þegar lagt er til að þetta gildi fyrst og fremst fyrir þá sem borga 1 milljón eða minna og þess vegna lækkar heildarupphæðin. Það má alveg deila um það hvort þeir sem greiða meira en það eigi að njóta þessa frítekjumarks, það eigi sem sagt að vera alla leið fyrir alla, þannig að það lækkar í heild sinni en nýtist hins vegar jafn vel þeim sem kannski mest þurfa á því að halda. Ég tel það eðlilegt og treysti því að ráðuneytið verði komið með góðar upplýsingar til þess að upplýsa nefndina um hvernig útfærslan á því verður þannig að hún verði raunveruleg. Það kannski skýrir þetta orð „þrenging“ sem er í umsögn fjármálaráðuneytisins, það er verið að þrengja það þannig að þeir einir njóti frítekjumarksins sem borga 1 milljón eða minna, sem sagt færri aðilar. En hugmyndin var sú að það ætti að vera með svipuðum hætti og svo var talið, en ég tel rétt að fara yfir það.

Að öðru leyti þakka ég fyrir þessa ágætu umræðu og treysti nefndinni til að fara vel yfir málið. Ég ítreka að hér er um að ræða sams konar fyrirkomulag — fyrirkomulagið í fyrra var ekki skrifað inn í lögin heldur birt tafla og sagt frá útreikningum. Hér er frumvarp sem skýrir það og ástæðan er sú að við ætlum að nota þetta til að leggja á veiðigjöld næstu þriggja ára, þess vegna þarf að skýra aðferðafræðina í frumvarpinu. En það eru nákvæmlega sömu forsendur og sömu útreikningar sem liggja til grundvallar og áður. Þær athuganir sem atvinnuveganefnd lét gera á þessu í fyrra hjá Hagfræðistofnun og víðar gilda við þessar aðstæður líka, hlutföllin í afkomunni hafa bara aðeins breyst.