144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

vopnakaup lögreglunnar.

[15:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég hygg að hv. þingmanni sé kunnugt um að fyrir örfáum dögum síðan kom skýrsla frá yfirvöldum lögreglumála um væntanlega þörf til að endurnýja vopnaaeign lögreglunnar, nokkuð sem við höfum verið að bíða eftir. Sú skýrsla er nýkomin í ráðuneytið og ég hef mjög stuttlega getað glöggvað mig á henni fram til þessa. Ég hyggst hins vegar birta skýrsluna á vef innanríkisráðuneytisins þannig að menn geti kynnt sér efni hennar og þann rökstuðning sem þar er að finna fyrir því að fara þurfi yfir vopnaeign lögreglunnar og tryggja að öryggi hennar sé með þeim hætti sem á þarf að halda.

Mín skoðun er sú að mjög mikilvægt sé þegar við lítum til þess hvaða tæki og tól lögreglan þarf að hafa yfir að ráða að hún komi sjálf með skýringar á því hversu mikill vopnaburðurinn þarf að vera og hvers eðlis hann sé. Grundvallaratriðið í því efni er auðvitað að íslenska lögreglan er almennt ekki vopnuð og í skýrslunni sem nú hefur borist í ráðuneytið er sú grundvallarafstaða mjög skýrt sett fram; það er ekki þannig að íslenska lögreglan sé vopnuð og það eru engin áform uppi um að breyting verði á þeirri almennu reglu. Hins vegar er komið að því að fara þarf yfir vopnaeign lögreglunnar og hvað það er sem hún þarf að fá til viðbótar. Þegar búið er að taka afstöðu til þess hvað þurfi að fá þarf að leita fjárheimildar til þess. En mín afstaða er eindregin sú að við Íslendingar munum borga fyrir þau vopn sem lögreglan þarf að hafa undir höndum.