144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

vopnakaup lögreglunnar.

[15:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Enn og aftur verð ég að fagna viðbrögðum hæstv. ráðherra þegar kemur að fyrirspurnum um upplýsingaflæði og fagna því mjög að þessi skýrsla verði birt, ég hlakka til að lesa hana. Ég vænti þess að í umræðunni sem mun væntanlega eiga sér stað í kjölfarið verði tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram, því að við megum ekki gleyma því að umræðan sem átti sér stað á síðasta ári kom fólkinu í landinu svolítið í opna skjöldu. Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum í huga hversu stór þáttur það er og hvers vegna það er stór þáttur að lögreglan gangi ekki dagsdaglega með vopn. Það er ekki einföld spurning um það hvað lögreglan þarf, það er líka spurningin um það hvað almenningur sættir sig við og hvernig almenningur vill haga löggæslu í grundvallaratriðum.

Ég fanga því að umræðan er öll miklu opnari en áður var en ítreka að það þarf lýðræðislegt umboð og það er mikilvægt að hluti af ákvörðunarferlinu sjálfu, ekki bara upplýsingunum heldur ákvörðununum sjálfum, liggi hjá valdi sem er hvað (Forseti hringir.) næst þjóðinni.