144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

aðkoma stjórnvalda að kjaradeilum.

[15:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á vinnumarkaði standa yfir alvarlegar vinnudeilur. Við sem hér erum inni sem og þjóðfélagið allt hefur af því verulegar áhyggjur þegar opinberir starfsmenn, og þar með talið heilbrigðisstéttir, hafa verið í verkfalli í á þriðju viku. Það heyrist ekkert frá ríkisstjórninni um þau mál ekki annað en það að ekki hefur verið boðað til fundar í þessari vinnudeilu síðan á fimmtudaginn síðasta. Menn leyfa sér í svo alvarlegri deilu, þar sem verkföll hjá svona mikilvægum stéttum standa yfir, að boða ekki einu sinni til fundar í fleiri daga og taka langar helgar.

Virðulegi forseti. Hvernig má það vera að við svona alvarlegar aðstæður fundi menn ekki svo dögum skipti?

Eftir hverju er ríkið að bíða? Hér eru heilbrigðisstéttir í verkfalli í á þriðju viku og það eina sem heyrist frá ríkisstjórninni er að forsætisráðherra segir að aðilar þurfi að koma sér saman áður en ríkið komi að málum. Hvað er verið að segja, ríkið sjálft er viðsemjandi í þessari deilu? Menn eru að vísa frá sér ábyrgð. Menn koma sér undan því að svara fyrir þessa stöðu. Því hlýt ég að spyrja hér: Hví þetta sinnuleysi? Eftir hverju er ríkisstjórnin að bíða? Það þarf að senda skýr svör út um það hvernig eigi að leysa þá alvarlegu deilu sem upp er komin. Það gerir það enginn annar en ríkið sem ber alla ábyrgð á þessari stöðu, ekki bara sem viðsemjandi, heldur hefur ríkið líka með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi á undanförnum missirum, þessi ríkisstjórn, hellt olíu á eldinn, ófriðarbálið sem nú er á vinnumarkaði, með breytingum á skattkerfinu, lækkuðum veiðigjöldum, sem hefur síðan verið fjármagnað með aukinni hagræðingarkröfu á mikilvæga opinbera þjónustu.