144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

aðkoma stjórnvalda að kjaradeilum.

[15:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það stendur yfir verkfall hjá heildarsamtökum BHM. Það er búið að standa yfir í á þriðju viku og það bættist við í hópinn í dag. Og hæstv. fjármálaráðherra, sem er viðsemjandi í málinu, stendur hér og er með ýmiss konar vangaveltur um eitt og annað á vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin þarf að vita hvert hún ætlar að fara. Hún þarf að vita hvaða stefnu á að taka í þessum viðræðum. Það kemur ekkert. Ríkisstjórnin skilar fullkomlega auðu í málinu. Það er staðfest hér í svörum hæstv. fjármálaráðherra. Hann vísar bara málunum frá sér og veltir hlutunum svona almennt fyrir sér eins og hann sitji við eldhúsborðið heima hjá sér. Vita menn ekki að þeir stýra þessu landi? Þeir fara fyrir ríkisstjórn og ríkinu og ríkisvaldinu í þessu máli.

Virðulegi forseti. Eftir því sem verkfallið stendur lengur þeim mun erfiðara verður að vinda ofan af því. Því (Forseti hringir.) þykir mér þetta sinnuleysi ríkisstjórnarinnar mjög alvarlegt. Ég hef miklar áhyggjur, og við í Samfylkingunni, af því sem koma skal ef fram heldur sem horfir.