144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

staða kjaramála.

[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það svo að við fylgjumst vel með því hvernig viðræðulotunni vindur fram og gerum okkur grein fyrir því að það getur skipt máli hvað ríkið hefur fram að færa, ekki bara beint í samskiptum við einstök félög, heldur í stóra samhengi hlutanna. Þó er það þannig að reglulega koma yfirlýsingar um að engri kröfugerð sé beint að ríkinu. Það hefur margoft komið fram. Það er ekki verið að bíða eftir neinu frá ríkinu. Eina sem verið er að gera er að rætt er um, mest á vettvangi sáttasemjara, þær kröfur sem menn vilja að nái fram að ganga. Hverjar eru þær? Hvernig birtast þær með ólíkum hætti frá einstökum félögum?

Ég get þó sagt mönnum að verði að þeim kröfum gengið munu laun í sumum tilvikum hækka um 50% og dæmi nú hver fyrir sig hvort það sé eitthvað sem við eigum að taka til álita, boða strax til fundar til þess að reyna að þoka málum áfram á þeim forsendum. Í öðrum tilvikum mundu laun hækka um 100% — eitt hundrað prósent. Finnst mönnum það vera sanngjörn krafa, grundvöllur að því að stíga skref inn í málið og reyna að leiða fram einhverja lausn?

Ég segi fyrir mitt leyti: Það er ekki grunnur að næsta fundarboði. Það er því miður ekki þannig. Jafnvel þótt menn leggist í verkfall þar sem landsmenn finna mest fyrir því eigum við svo mikið undir því sameiginlega og það þarf að fara að vaxa skilningur á því að okkur auðnist að halda verðbólgunni áfram lágri. Þá kemur mest út úr þessari lotu þar sem við höfum svo sannarlega tækifæri til þess að leysa ýmis áhyggjumál á vinnumarkaðnum, áherslumál einstakra félaga, en viðhalda á sama tíma jafnvægi.