144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[15:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Endurtekin verkföll innan heilbrigðiskerfisins eru hættumerki. Heilbrigðisstéttir fara ekki gjarnan í verkföll enda stríðir það gegn siðareglum þeirra og það er ekki fyrr en í lengstu lög að þessar stéttir nýta sér verkfallsvopnið.

Við í velferðarnefnd funduðum í morgun með landlækni, Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Landlæknir lýsti yfir töluverðum áhyggjum af þessu verkfalli og benti á að það væri jafnvel alvarlegra en læknaverkfallið í ljósi þess að þarna eru fleiri stéttir í verkfalli sem flækir málið, það gerir sjúkrahúsinu erfiðara fyrir að bregðast við og forgangsraða. Jafnframt kom fram að verkfallið bitnar langþyngst á Landspítala þó að Sjúkrahúsið á Akureyri fari vissulega ekki varhluta af og hafi áhyggjur af mögulegum verkfallsaðgerðum annarra félaga.

Heilbrigðiskerfið fékk ekki að njóta góðærisins en komst ekki undan niðurskurðartímabilinu. Heilbrigðiskerfið gat ekki fækkað verkefnum eðli málsins samkvæmt svo niðurskurðurinn bitnaði á kjörum starfsfólks og nú er komið að þolmörkum.

Ég spyr ráðherra um mat hans á stöðunni. Hversu langt verkfall telur hann að heilbrigðiskerfið þoli? Er ráðherra sammála mér um að auka þurfi fé til heilbrigðiskerfisins og ef svo er, hversu mikið fé skortir inn í málaflokkinn?