144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

vitnað í orðaskipti á lokuðum nefndarfundi.

[15:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað um það hvernig við berum okkur að á nefndarfundum. Það er alveg laukrétt, eins og kom fram í upphafi þessarar umræðu um fundarstjórn forseta, að ekki er heimilt samkvæmt fundarsköpum að vitna beint í orð fólks inni á fundum nema fá til þess sérstakt leyfi. Ég hef gert það hér í ræðustól og ekki fengið ákúrur fyrir, þegar ég hef vitnað til þess sem sagt hefur verið af hálfu opinbers embættismanns á nefndarfundum, einmitt vegna þess að viðkomandi hafði tjáð sig um málið opinberlega áður. Ég tel að það skipti miklu máli með hvaða hætti slíkt er gert. Þetta eru upplýsingar, eins og í þessu tilfelli, sem hafa áhrif á okkur öll, allt samfélagið, og þegar ekki er tekið orðrétt eftir fólki heldur vitnað til þess sem fram kom, þá finnst mér það gegna allt öðru máli en ef ég hefði eftir öðrum þingmanni eða öðrum gesti nákvæmlega það sem sagt hafði verið. Á því er mikill munur, stigsmunur, virðulegi forseti.