144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

kútter Sigurfari.

549. mál
[16:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er ég með fyrirspurn um mál sem snýst um hvort endurbyggja eigi kútter Sigurfara eða henda honum. Það þarf enginn að efast um mikilvægi þess að við varðveitum sem best sögu sjávarútvegs okkar sem hefur verið undirstöðuatvinnuvegur okkar Íslendinga um aldir.

Árið 1974 var kútter Sigurfari fluttur frá Færeyjum til Akraness á vegum Kiwanisklúbbs Akraness að frumkvæði séra Jóns M. Guðjónssonar. Hér er um að ræða kútter sem var byggður á Englandi 1885, var í eigu Íslendinga frá 1897 og sigldi við Íslandsstrendur um 20 ára skeið en endaði síðan í Færeyjum þaðan sem hann var keyptur. Nokkur ár tók að koma skipinu fyrir og endurbyggja það, en síðan hefur komið í ljós að skipið varðveitist illa á þurru landi, hefur legið undir skemmdum um langt skeið og er nú lokað sýningargestum og hættulegt umhverfi sínu. Kútterinn verður ónýtur ef ekkert verður að gert.

Fram hefur komið í umsögn þjóðminjavarðar og fleiri að enginn efast um varðveislugildi kútters Sigurfara og mikilvægi þess að við varðveitum þessar minjar úr sögu skipaútgerðar og sjávarútvegs á Íslandi.

Sú hugmynd hefur hvað helst verið á lofti nú nýlega að byggja yfir kútterinn og endurbyggja hann innan húss, en hafa hann um leið sem sýningargrip, þ.e. að menn fái að fylgjast með því hvernig hann verður endurbyggður og þá um leið hægt að fjalla bæði um útgerðina á þessum skipum og einnig sjá handverkið við að endurbyggja slíkt skip. Þessi leið kostar að minnsta kosti 200–300 millj. kr.

Nú um áramótin greiddi hæstv. forsætisráðherra út 5 millj. kr. til endurbyggingar kútters Sigurfara. Menningar- og safnanefnd Akranesbæjar sá sér ekki fært að þiggja styrkinn, enda sá hún ekki að fjárveitingin mundi duga til mikils í sambandi við endurbygginguna. Bæjarráð Akraness vildi þó að málið yrði skoðað betur og fól bæjarstjóra, með leyfi forseta, „að leita eftir formlegu samstarfi við þjóðminjavörsluna, forsætisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið um framhald málsins“.

Því vil ég beina þeim spurningum til hæstv. forsætisráðherra hvort kútterinn verði endurbyggður eða hvort eigi að henda honum og orða spurningarnar þannig:

Telur ráðherra mikilvægt að varðveita kútter Sigurfara? Ef svo er, hyggst hæstv. forsætisráðherra beita sér fyrir framtíðarlausn á varðveislu kúttersins í samræmi við ósk bæjarráðs Akraneskaupstaðar? Kemur til greina að ráðstafa til endurgerðar og varðveislu kútters Sigurfara þeim 60 millj. kr. sem átti að veita til verkefnisins samkvæmt samkomulagi Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar og menntamálaráðuneytis þar um frá 2007? Sá styrkur kom aldrei til greiðslu vegna þess að bæjaryfirvöld höfðu þá ekki efni á mótframlagi, og þeir peningar hafa því heldur ekki verið greiddir út úr ríkissjóði.