144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

kútter Sigurfari.

549. mál
[16:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna svörum hæstv. forsætisráðherra um mikilvægi þess að varðveita kútter Sigurfara og þeirri yfirlýsingu að hann telji eðlilegt að vinna haldi áfram miðað við þær umræður sem voru 2007 í samræmi við ósk viðkomandi aðila.

Það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir, þær hugmyndir sem þar voru uppi um að endursmíða skipið, fara raunar með það til Skotlands, endursmíða það og koma því á flot, eru sjálfsagt úreltar og meira horft til þess að byggja yfir það og nýta það sem safngrip um leið og það er endurbyggt. Ég ætla að vona að þetta gangi eftir.

Það er alveg rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir, skipið var mun verr farið en menn höfðu gert ráð fyrir og þrátt fyrir töluvert mikla endurbyggingu sem átti sér stað á skipinu var metið hættulegt að hafa það til sýnis. Þetta er engu að síður mikilvægur gripur í sögu sjávarútvegs. Það kemur mjög vel fram í svari hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur um menningarminjar og græna hagkerfið hver rökstuðningurinn er á bak við 5 millj. kr. framlagið. Það er þó ljóst að 5 milljónirnar duga engan veginn til að fara í þessa endurbyggingu. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka núna áskorun frá bæjarráði Akranesbæjar, raunar frá Hvalfjarðarsveit þá líka, og fara í viðræður um það með hvaða hætti megi varðveita þessar minjar.

Bæði í gríni og alvöru væri kannski hægt að velta upp þeirri hugmynd hvort hæstv. forsætisráðherra eigi ekki að fá heimild til að setja kvóta á þetta skip. Það þarf ekkert mikinn kvóta miðað við það hvernig markaðurinn gengur. Það er ein fjármögnunarleiðin að ef kútter Sigurfari fengi um það bil 1 þús. tonna þorskkvóta sem yrði settur í leigu væri búið að fjármagna þessa framkvæmd. Nú þegar við fáum aukningu upp á sennilega 20–30 þús. tonn í þorski á komandi kvótaári væri vert að hugsa hvort menn ættu að varðveita sjávarminjar með einhverju slíku álagi bara til að tryggja að hér sé hægt að varðveita sögu sjávarútvegs til langs tíma.