144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

kútter Sigurfari.

549. mál
[16:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ítreka að ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að varðveita sjávarminjar hér á landi og rétt að leita ýmissa leiða til þess. Aðeins áður en lengra er haldið að 5 milljónunum voru þær eingöngu hugsaðar til að verja skipið og reyna að koma í veg fyrir áframhaldandi tjón á því, en jafnvel bara það að verja skipið virðist vera töluvert dýrt eins og ég nefndi áðan. Það verður þá vonandi ekki til þess að skipið skemmist öllu meira en orðið er.

Á vegum forsætisráðuneytisins er núna í undirbúningi að setja á laggirnar vinnuhóp með aðkomu bæjaryfirvalda, Þjóðminjasafns, Minjastofnunar Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytisins eða jafnvel safnaráðs til að greiða úr þessu verkefni og huga að næstu skrefum í því sem ég tel löngu tímabært. Ég vona að það verði farsællega til lykta leitt.

Það hefur aldrei verið tekin ákvörðun um annað en að fjárveitingar Alþingis skili sér til verkefnisins, en verði framkvæmdin önnur en sú sem samningurinn frá 2007 gerði ráð fyrir hefur bæði fjárlaganefnd Alþingis og mennta- og menningarmálaráðuneytinu þótt nauðsynlegt í þessu ferli að samningur frá 2007 verði felldur úr gildi og nýr gerður til að taka af öll tvímæli um að breytt ráðstöfun fjárveitinga Alþingis standist kröfur fjárreiðulaga. Ég tel það raunar skynsamlegt og ekki fela í sér að menn séu á nokkurn hátt að breyta afstöðu sinni til verkefnisins eða mikilvægis þess, eingöngu að laga aðkomu Alþingis að breyttri nálgun. Það mun einnig vera mat Ríkisendurskoðunar að nauðsynlegt sé að gera þetta svona.

Á meðan óvissa ríkir um hvernig að málum verði staðið er málið því ófrágengið, en mér finnst einboðið að það verði meðal verkefna þessa vinnuhóps sem ég nefndi áðan sem forsætisráðuneytið hyggst setja (Forseti hringir.) á laggirnar að gera tillögur að nýjum samningi.