144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

skýrsla um aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014.

564. mál
[16:21]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég byrja á því sem fyrr að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að fá tækifæri til að fjalla um mál sem mér er mjög hugleikið og þakka jafnframt fyrir að hv. þingmaður skyldi nefna það sérstaklega að um væri að ræða merkilega og metnaðarfulla stefnu sem hefði alveg mátt vekja meiri athygli. Ég tek undir þau orð.

Eins og ég nefndi í fyrirspurnatíma í þessum sal í nóvember á síðasta ári verður mér það mikil ánægja að fara yfir framvindu aðgerðaáætlunar Vísinda- og tækniráðs við fyrsta tækifæri svo ég svari fyrstu spurningu hv. þingmanns. Ég vona að það geti gerst sem fyrst svo við getum rætt stöðu skýrslunnar á meðan hún er enn ný.

Það er haldið utan um aðgerðaáætlunina í forsætisráðuneytinu og í starfshópi um málefni Vísinda- og tækniráðs, en í þeim hópi sitja fulltrúar ráðuneyta, Ranníss og formenn starfsnefndaráðsins. Á síðasta fundi ráðsins þann 13. mars sl. kynntu ráðherrar stöðuskýrslu um aðgerðaáætlunina fyrir öðrum meðlimum ráðsins og voru ágætar umræður um skýrsluna á fundinum, en ætlunin er að birta slíka skýrslu tvisvar á ári. Stöðuskýrslan er nú þegar aðgengileg á vef ráðuneytisins og ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér efni hennar þar.

Eins og hv. þingmenn sjá eða heyra vonandi af þessu er vinna við þessi mál í samræmi við áætlun og þessu er fylgt eftir með stöðugu mati, eftirfylgni og skýrslugjöf. En ég hef áður nefnt að það er nýbreytni í vinnu ráðuneytisins og þessu fyrirkomulagi var komið á í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Svo geri ég ráð fyrir að fá að koma hér aftur í lokin og svara nánar spurningum hv. þingmanns því að það eru nokkur atriði sem ég mundi gjarnan vilja bæta við.