144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

nýtt vegstæði yfir há-Holtavörðuheiði.

623. mál
[16:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir þessa fyrirspurn. Ég ætla að vinda mér í að svara þeim spurningum sem hann hefur lagt hér fyrir mig.

Í fyrsta lagi: Hvaða athuganir hefur Vegagerðin látið gera á nýju vegstæði yfir há-Holtavörðuheiði?

Veturinn 2006–2007 ákvað Vegagerðin að kanna mögulega nýja veglínu sem lægi nokkru neðar um Holtavörðuheiði. Unnin voru svokölluð frumdrög að veglínu austan Holtavörðuvatns en neðan Bláhæðar þar sem vegurinn liggur nú hæst. Nú væri gaman að hafa kort til að geta bent nánar á það nákvæmlega hvaða svæði hér er um að tefla, en þessi breyting á veglínunni mundi byrja norðan Norðurár og taka við af Biskupsbeygju, sem við þekkjum vel og Hæðasteinsbrekku. Síðan færi hún austan Holtavörðuvatns neðan Bláhæðar þar sem núverandi hæsti punktur Holtavörðuheiðarinnar er og kæmi þá inn á gamla veginn 10 kílómetrum norðan Norðurár, með öðrum orðum um 4 kílómetrum norðan Bláhæðar.

Í frumdrögum að hönnun vegar felst grófhönnuð veglína en ofan á landlíkan sem unnið er út frá loftmyndum. Jafnframt var gerð gróf kostnaðaráætlun. Með hléum hefur verið unnið nánar að ýmsum athugunum við þessa leið, m.a. könnuð önnur veglína vestan Holtavörðuvatns. Það hefur verið farið í vettvangsferðir að vori til að kanna snjóalög og færanleg sjálfvirk veðurstöð hefur verið sett upp á þremur stöðum. Lítið hefur verið unnið úr gögnum frá veðurmælingum þessum. Þá er ljóst að bæði meðal- og mesti vindur er mun minni á þessari nýju leið en á háheiðinni þar sem núverandi vegur liggur.

Hversu miklu neðar, í metrum talið, gæti nýtt vegstæði legið? er spurt.

Vegur samkvæmt þessum nýju veglínum mun færast um 350 metra og vera nokkru norðar Holtavörðuvatns. Núverandi vegur liggur hæst í 407 metrum, mesti hæðarmunur yrði því 50–60 metrar.

Hver er hugsanlegur kostnaður við slíka framkvæmd?

Það má gera ráð fyrir því að nýr vegur á þessari leið, sem er 7,5 kílómetrar að lengd, muni kosta á bilinu 850–950 millj. kr.

Kemur til greina af hálfu ráðherra að veita fé til slíkrar framkvæmdar í næstu fjögurra ára samgönguáætlun?

Þessi framkvæmd er ekki á fjögurra ára áætlun og raunar ekki á 12 ára samgönguáætlun. Ég ætla ekki að leggja mat á þessa framkvæmd í þessari stuttu fyrirspurn en mér þykir hins vegar áhugavert að ræða þær leiðir og bætur á þjóðvegakerfinu sem bæði stytta leiðir og draga úr hæð vega og gera þannig samgöngur greiðari. Það er mín almenna skoðun. Það á eflaust við um þetta svæði, án þess að ég vilji ganga lengra í þeim efnum, en líka víðar á landinu þar sem hægt er að fara í verulegar styttingar. Við þekkjum þessa umræðu um Húnavatnssýsluna þar sem hugsanlega væri hægt að stytta mjög verulega. Við vitum líka að þar eru heimamenn ekki allir á einu máli um þá hugmynd, en það er enginn vafi að slík framkvæmd mundi hafa veruleg áhrif á tímalengd, ferðahraða, öryggi o.s.frv. á vegum.

Mér finnst að við þurfum að líta til þess um leið og við lítum til nýframkvæmda, styttingar o.s.frv. hvar við getum farið í framkvæmdir sem eru hreint til þess fallnar að lækka veghæð, draga úr lokunartímum vegna veðurs, stytta vegalengdir og auka öryggi. Engir fjármunir eru ráðgerðir í þetta á þessu stigi málsins og engar frekari ákvarðanir hafa verið teknar hvað þessa framkvæmd varðar.