144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

nýtt vegstæði yfir há-Holtavörðuheiði.

623. mál
[16:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé einmitt afar brýnt þegar við lítum til 12 ára samgönguáætlunar og ráðstöfunar fjár í samgöngumálum á næstu árum og áratugum að við veitum fé til rannsókna. Þá er ég að tala um bæði vegna þjóðvegarins, styttingar á þjóðvegi nr. 1, annarra framkvæmda sem eru þá tengivegir og slíkir þættir, að við setjum fé í rannsóknir þannig að við getum skipulagt fjármagn til þessara vegamála af eins mikilli skynsemi og völ er á. Þá þarf líka að líta til annarra samgönguframkvæmda eins og hafnarframkvæmda. Við sjáum núna vandann sem blasir við okkur í Landeyjahöfn þar sem við þurfum stöðugt að vera að dýpka höfnina af því að menn sáu aðstæður ekki fyrir þegar menn fóru í þá framkvæmd. Það er mjög mikilvægt að við veitum almennilegt fé til að geta rannsakað þessi mál eins vel og hægt er þannig að þær ákvarðanir sem við tökum, hvort sem varðar nýstórframkvæmdir, jarðgöng, vegi um óbyggð svæði eða hvað sem er, séu að minnsta kosti teknar eftir nákvæma skoðun, bæði út frá öryggissjónarmiðum sem eru gríðarlega mikilvæg, fjárhagslegum sjónarmiðum og síðan með tilliti til styttingar ferðatíma.