144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

íþróttakennsla í framhaldsskólum.

709. mál
[16:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mig langar til að ræða við hæstv. menntamálaráðherra um hluta af því sem hefur verið kallað stytting til stúdentsprófs því að mikil vinna hefur farið af stað innan framhaldsskólans til að stytta námið og unnið hefur verið hörðum höndum að því að skipuleggja það. Ein af þeim tillögum sem hefur verið til umfjöllunar er tillaga sem kölluð hefur verið 10.4 þar sem kemur fram, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að umfang íþrótta, líkams- og heilsuræktar í kjarna séu 3–6 framhaldsskólaeiningar.“

Þessar 3–6 framhaldsskólaeiningar jafngilda 1,8–3,6 úr gamla einingakerfinu. Þetta er töluvert mikil skerðing á íþróttakennslu og hlýtur að kalla á spurninguna um fagleg rök sem styðja við slíka ákvörðun.

Eins og við þekkjum eru langvinnir lífsstílstengdir sjúkdómar ein helsta dánarorsök í heiminum. Á sama tíma og alþjóðaheilbrigðisstofnanir ítreka mikilvægi daglegrar hreyfingar ungmenna leggur menntamálaráðuneytið fram tillögu sem felur í sér verulega skerðingu á heilsuræktarkennslu í framhaldsskólum sem mun að mínu viti ýta undir lífsstílstengda sjúkdóma meðal framhaldsskólanema í landinu. Síðan verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli var sett á laggirnar hefur umhverfið í framhaldsskólum breyst mikið, m.a. hafa mötuneytin í framhaldsskólum tekið jákvæðum breytingum og skólarnir hafa margir hverjir boðið upp á mun fjölbreyttari líkams- og heilsuræktaráfanga sem hefur aukið áhuga mjög margra nemenda á líkams- og heilsurækt enda hlýtur markmið okkar að vera að auka almennt heilsulæsi ungs fólks.

Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor fer fyrir ráðherraskipaðri nefnd um lýðheilsu. Hún hefur farið yfir stefnumörkun næstu ára þar sem daglegar hreyfistundir í grunnskólum landsins ættu að verða að veruleika á árunum 2016–2017. Í þeirri ráðherranefnd sem að þessum málum kemur á nú sæti meðal annars mennta- og menningarmálaráðherra og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp meginhlutverk hennar sem er „að vinna drög að heildstæðri stefnumótun og aðgerðaáætlun, sem hefur það að markmiði að efla og bæta lýðheilsu á öllum aldursskeiðum með sérstakri áherslu á börn og ungmenni“.

Ég tel að slík stefnumótun sem hér er lögð fram geti orðið til lítils ef heilsuræktarkennsla verður nánast lögð af í framhaldsskólum því að það að ætla að bjóða upp á einn, kannski tvo, áfanga í íþróttakennslu er ekki boðlegt. Við eigum auðvitað frekar sem heilsueflandi þjóð að leggja áherslu á aukna kennslu en ekki láta skólunum vera það algerlega í sjálfsvald sett. Þetta á að vera partur af grunninum að mínu mati. Ég hvet ráðherra til að beita sér fyrir því að svo verði því að ég spyr auðvitað: Hver er ábyrgur fyrir þessari tillögu og á hvaða forsendum er hún samin? Eru fagleg rök fyrir því að draga úr íþróttakennslu í framhaldsskólum og hver eru þau þá? Telur ráðherra samdrátt í íþróttakennslu í framhaldsskólum samræmast annars vegar verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli og hins vegar lýðheilsumarkmiðum ríkisstjórnarinnar?