144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

íþróttakennsla í framhaldsskólum.

709. mál
[16:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og þingmanninum fyrir þátttökuna. Ég tel að það séu sett hæfnisviðmið í þessum áföngum eins og öðrum. Að minnsta kosti var það í þeim skóla þar sem ég starfaði. Íþróttakennsla er bæði bókleg og verkleg. Við getum alveg sett hæfnisviðmið í hvort tveggja, teljum við þess þörf, eins og í öðrum fögum. Ég tel að bóklegi hlutinn, eins og ég segi, falli kannski fyrst og fremst þar undir. Ég tel að við eigum að skylda nemendur til að taka þátt af því að ég tel miklar breytingar verða hjá nemendum. Þetta mikla brottfall úr almennri íþróttaiðkun utan skóla er líka mikið, hreyfing hefur sjaldan verið eins mikilvæg og við erum farin að gefa út hreyfiseðla á síðari árum.

Með því að gera þetta svona erum við ekki að styðja við heilsuvitund ungmenna og komandi kynslóða. Á fyrstu tíu árum skólaskyldunnar leggjum við hornstein eins og kom fram í því sem ég sagði áðan þar sem verið er að búa til og fastmóta ákveðna stefnu. Ef við ætlumst til þess að einstaklingur verði fær og ábyrgur fyrir eigin heilsu og velferð þurfum við að festa þetta í sessi áfram og lengra. Þetta er viðkvæmasti aldurinn, á þessum aldri tileinka nemendur sér gjarnan annars konar lífsstíl. Ég held að við eigum að beita okkur þarna.

Rannsóknir hafa líka sýnt að samþætting líkamlegrar virkni og náms í skólum ýtir undir einbeitingu og áhuga nemenda á námi. Í mínum huga er það þannig að skólakerfi landsins á að hlúa að nemendum og lýðheilsu Íslendinga með umgjörð sem eflir heilsu einstaklingsins í samfélaginu. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að sjá til þess að einingarnar verði ekki of fáar, (Forseti hringir.) það verður að kenna að minnsta kosti áfanga á fyrstu tveimur árum hvers nemanda í framhaldsskóla.