144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

íþróttakennsla í framhaldsskólum.

709. mál
[16:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir fyrirspurnina og eins hv. þingmanns fyrir þátttöku í umræðunni. Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni, námskráin mun eftir sem áður annars vegar skilgreina skyldunám í íþróttum fyrir alla og hins vegar þann möguleika nemenda að taka íþróttir sem frjálst val. Áfram er auk þess gert ráð fyrir að skólar geti skipulagt sérstakar íþróttabrautir sem innihalda umfangsmeiri íþróttakennslu.

Við erum öll sammála um að hreyfing og íþróttir skipta miklu máli fyrir börn okkar og ungmenni. Ég var nýverið á þingi Íþróttasambandsins, ÍSÍ, og þar birtust tölur sem voru mjög hvetjandi að mínu mati fyrir okkur hvað varðar almenna íþróttaþátttöku innan vébanda íþróttafélaganna af hálfu barna og ungmenna. Þar kemur í ljós að mikill hluti krakkanna okkar tekur þátt í margs konar íþróttaiðkan. Mjög hefur fjölgað greinunum sem hægt er að stunda þannig að það er líklegra að þau finni viðfangsefni sem hentar þeim og meira að segja sá hluti þeirra sem æfir íþróttir oftar en fjórum sinnum í viku hefur vaxið mjög. Þetta er jákvætt þannig að við megum heldur ekki bara horfa á akkúrat það sem gerist í skólunum, þótt það skipti líka miklu máli, það má ekki gleyma því gríðarlega starfi sem er unnið af íþróttafélögunum um land allt þar sem boðið er upp á íþróttaiðkun fyrir börn og ungmenni.

Hvað varðar síðan skólasamfélagið okkar ítreka ég það sem hér er sagt, í námskránni verður áfram gert ráð fyrir skyldunámi í íþróttum, áfram gefinn sá möguleiki að búa til íþróttabrautir og líka valáfanga. Þetta skiptir máli.

Hvað varðar síðan heilsueflandi skóla fór ég einmitt yfir það að nálgunin á heilsueflandi skóla er ekki bara íþróttirnar heldur líka geðheilbrigði, mataræði og aðrir slíkir þættir sem skipta miklu máli. Allt (Forseti hringir.) kemur þetta saman til þess að efla börnin okkar og ungmennin til að fara síðan út í lífið.