144. löggjafarþing — 92. fundur,  20. apr. 2015.

efnalög.

690. mál
[16:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á efnalögum, nr. 61/2013. Gildistaka efnalaga 2013 var mikið framfaraspor því að brýn þörf var á nýjum heildarlögum um þann viðamikla og flókna málaflokk sem efnamálin eru. Með efnalögunum hefur fengist betri yfirsýn yfir málaflokkinn. Nú er lögð áhersla á eftirlit efst í aðfangakeðjunni, hjá þeim sem mesta ábyrgð bera, með hættulegustu efnavörunum til að vernda heilsu fólks og umhverfi. Horft er til efnavara í umhverfi barna, til almennra nota sem og í iðnaðarstarfsemi. Efnalöggjöfin er í stöðugri þróun.

Tilefni þessa frumvarps er að færa eftirlit með raf- og rafeindabúnaði frá Umhverfisstofnun til Mannvirkjastofnunar, innleiða EES-gerðir, skerpa á tilteknum ákvæðum og breyta orðalagi í ljósi þeirrar reynslu sem er komin á framkvæmd efnalaga.

Meginefni frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða innleiðingu á EES-gerðum. Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/EB, um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum. Markmiðið með þeirri tilskipun er að bæta loftgæði með því að draga úr losun bensíngufu út í andrúmsloftið. Meðal annars er lagt til að allar nýjar bensínstöðvar skuli útbúnar kerfi til að endurheimta bensíngufu ef raunverulegt eða áætlað gegnumstreymi er umfram tiltekin mörk. Hið sama á við um allar bensínstöðvar sem fyrir eru og eiga að gangast undir meiri háttar endurnýjun. Einnig er lagt til að gufugleypibúnaður þurfi að uppfylla lágmarkskröfur um endurheimt bensíngufu. Það er því afar brýnt að innleiða umrædda tilskipun sem allra fyrst í ljósi þessa og ekki síður að Eftirlitsstofnunin ákvað þann 8. apríl sl. að vísa þessu máli gegn Íslandi til EFTA-dómstólsins þar sem tilskipunin hafði þá ekki verið innleidd í íslenska löggjöf.

Frumvarpinu er einnig ætlað að styrkja lagastoð fyrir innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/33/EB um breytingu á tilskipun 1999/32/EB um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti. Í frumvarpinu er lagt til að brennisteinsinnihald í eldsneyti, bæði sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands, skuli fylgja þeim takmörkunum sem ráðherra setur í reglugerð. Frumvarpinu er einnig ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/30/EB um breytingu á tilskipun 98/70/EB um gæði bensíns og dísileldsneytis og kerfi til að fylgjast með og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í frumvarpinu er lagt til að einungis verði heimilt að markaðssetja eldsneyti sem uppfyllir kröfur um innihaldsefni sem ráðherra setur í reglugerð. Þá er meðal annars gert ráð fyrir að eldsneytisbirgjar beri ábyrgð á vöktun og skýrslugerð í tengslum við umræddar kröfur.

Frumvarpinu er enn fremur ætlað að setja lagastoð fyrir reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 517/2014 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, svokallað F-gas, og niðurfellingu reglugerðar nr. 842/2006. Með reglugerðinni eru settar reglur um aðgerðir til að draga úr losun, um viðskipti, takmarkanir og skerðingu á framboði flúoraðra gróðurhúsalofttegunda. Reglugerðinni er ætlað að styrkja núverandi aðgerðir til að draga úr losun þessara efna og setja fram markmið í þeim efnum.

Efni frumvarpsins snýr í öðru lagi meðal annars að því að færa eftirlit með hættulegum efnum í raf- og rafeindabúnaði frá Umhverfisstofnun til Mannvirkjastofnunar, eins og ég kom að fyrr. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/65/ESB, um takmörkun á notkun tiltekinna hættulegra efna í raf- og rafeindatækjum, var innleidd á sínum tíma með reglugerð um takmarkanir á notkun tiltekinna hættulegra efna í raf- og rafeindabúnaði. Telja verður að eftirlit með framkvæmd tilskipunarinnar falli betur að því hlutverki Mannvirkjastofnunar að hafa markaðseftirlit með rafföngum og felur því í sér samlegðaráhrif og aukna skilvirkni. Lagt er til að um framkvæmd eftirlits og þvingunarúrræði fari samkvæmt lögum um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun.

Í frumvarpinu eru í þriðja lagi lagðar til breytingar til að gera orðalag skýrara, einfalda og tryggja betur framkvæmd laganna í ljósi reynslunnar og laga hugtakanotkun að breyttri hugtakanotkun í nýrri EES-gerðum. Til að mynda er gert ráð fyrir að skylt verði að halda skrár um plöntuverndarvörur og útrýmingarefni og breytingar á framkvæmd við tilkynningu til Umhverfisstofnunar vegna markaðssetningar eiturefna og leyfisskyldra efna.

Enn fremur er lagt til að óheimilt verði að markaðssetja efni og efnablöndur sem ekki uppfylla ákvæði laganna um merkingar. Tilgangur þessa er að árétta þá ábyrgð rekstraraðila verslana að selja ekki vanmerktar vörur. Einnig er lagt til að Umhverfisstofnun hafi heimild til að beita verslanir stjórnvaldssektum brjóti þær gegn umræddu banni.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.