144. löggjafarþing — 92. fundur,  20. apr. 2015.

efnalög.

690. mál
[17:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Bara örfá atriði í sambandi við þetta frumvarp sem er tæknilegt og kannski ekki léttur lestur eða skemmtilestur en engu að síður mjög mikilvægt. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra, efnalögin voru mjög mikilvægur áfangi. Það vantaði orðið sárlega upp á það að við hefðum með samræmdum hætti farið yfir þetta svið sem athygli manna hefur beinst að í auknum mæli á síðustu árum eða árabili í ljósi þess að alltaf eru að koma nýjar og nýjar upplýsingar um þau fjölmörgu efni sem við erum að notast við í okkar nútímasamfélagi og geta sum hver verið býsna varasöm ef ekki er vel að málum staðið. Hér er að einhverju leyti uppfærsla á ákvæðum gildandi laga og breytt skýring eða afmörkun hugtaka og svo að einhverju leyti verið að taka inn nýjar gerðir eða undirbúa komu annarra. Eins og sést í frumvarpinu er þetta býsna langur listi, satt best að segja, því að í enda frumvarpsins, í 34. gr., eru taldar upp að mér sýnist 13 tilskipanir á þessu sviði sem eru þarna heimfærðar inn í 69. gr. laganna og við komin í ónáð með eitthvað af þessu ef ég heyrði rétt hjá hæstv. ráðherra.

Ég hef enga sérstaka skoðun á þessari tilfærslu á eftirliti með rafvörum yfir til Mannvirkjastofnunar frá Umhverfisstofnun og treysti því að það sé vel ígrundað, en það eru nokkur önnur atriði sem ég staldra aðeins við. Í fyrsta lagi þetta með bensínstöðvarnar og búnaðinn til að endurheimta bensíngufu sem er talsvert viðamikill og er verið að innleiða hér. Í fyrsta lagi vaknar spurningin hvort eitthvað liggi fyrir um líklegan kostnað af þessum sökum þegar þetta verður tekið upp hér. Nú eru kannski stærðarmörkin þannig úr garði gerð að þetta komi ekki mikið við flestar minni bensínstöðvar í landinu. Ég þekki það svo sem ekki nákvæmlega en í fyrsta lagi, af því að ég finn hvergi neitt í greinargerð með frumvarpinu að um það hafi verið eitthvað skoðað, spyr ég hvort vænta megi þess að þarna leggist á allmikill kostnaður.

Það leiðir að annarri spurningu sem er um hvaða svigrúm við höfum til innleiðingar í þessum efnum í ljósi aðstæðna okkar. Er það fullnýtt með þessum stærðarmörkum eða höfum við umtalsvert svigrúm til að útfæra þetta í krafti aðstæðna hér? Mikill fjöldi mjög lítilla afgreiðslustaða er vítt og breitt um landið. Kannski sleppa þær allar undir þessi stærðarmörk en ég spyr engu að síður til fróðleiks: Hvað liggur fyrir um það og hvaða áhrif hefur þetta hér? Er það kannski bundið fyrst og fremst við stærstu afgreiðslustöðvarnar þótt þetta sé svo sem ekkert óskaplegt magn, 100 eða 500 tonn á ári eða rúmmetrar?

Í þriðja lagi spyr ég um aðlögunartímann sem er veittur til að breyta þeim stöðvum sem eru það stórar að þær þurfa að ráðast í þessar framkvæmdir í ljósi þess að við erum væntanlega seint á ferðinni með þessa innleiðingu. Hér er gefinn tími til 2018, ef ég tók rétt eftir. Er það allur sá tími sem til staðar er? Er okkur skylt að hafa lokið þeim breytingum fyrir þann tíma? Kannski er það bara metnaðarfullt markmið að láta þetta ekki dragast lengi ef ráðherra hefur einhverjar upplýsingar um það eða eftir atvikum að þetta verði skoðað í nefnd.

Svo kem ég að brennisteinsinnihaldi í eldsneyti og þá sérstaklega í flotaolíunni. Þar er á ferðinni innleiðing sem hefur þó nokkur áhrif, geri ég ráð fyrir, á Íslandi í ljósi þess að við erum með nokkuð stóran fiskiskipaflota og einhver fraktskipafloti er nú að sigla til landsins þó að hann sé væntanlega allur á erlendum fána en það breytir ekki því að þegar hann kemur inn í okkar lögsögu verður hann að uppfylla þær reglur sem hér eru. Vandinn við þetta er sá að skipaflotinn er ekki allur staðbundinn og hann fer á milli lögsagnarríkja. Eins og þetta er innleitt af hálfu annarra eru viðmiðunarmörkin oft ólík eftir því hvort um siglingu á innhafi eða við strendur er að ræða eða á úthafinu.

Á norrænum vettvangi hefur þetta verið talsvert til umræðu og skoðunar og ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta hafi að einhverju leyti verið unnið í samráði við Norðurlöndin eða tekið mið af undirbúningi þeirra undir innleiðinguna. Ég hef tekið þátt í því á norrænum vettvangi að sitja langa fundi og hlusta á margar ræður, sérstaklega frá vinum vorum við Eystrasaltið sem eru uppteknir af þessu þar sem þeir hafa velt upp möguleikunum og jafnvel viljað skora á stjórnvöld að samræma innleiðinguna yfir Norðurlöndin þannig að menn lentu ekki í því að ólík viðmiðunarmörk giltu í lögsögum mismunandi ríkja af augljósum ástæðum. Það væri að sjálfsögðu að mörgu leyti heppilegast að þetta væri samræmt sem allra mest yfir stór svæði, þau samgöngusvæði þar sem skip ferðast um. Einhver undirbúningur hlýtur að hafa átt sér stað að þessu leyti í ráðuneytinu um hvert brennisteinsinnihaldið eða brennslupunkturinn eigi að vera.

Nú er litlar upplýsingar að hafa um þetta í frumvarpinu, í raun engar vegna þess að málið á að afgreiðast með reglugerð. Það getur vel verið að það sé besta útfærslan en við erum þá mjög litlu nær um það hvaða viðmiðunarmörk verða sett hér. Verða þau metnaðarfull, ströng eða verða þau minna ströng, verða þau ólík fyrir til dæmis strandveiðiflotann og flota sem er hér við landið og inni í höfnum dagsdaglega yfir í aftur fraktskip sem sigla náttúrlega meira á úthafinu eða stærri fiskiskip sem fara í úthafið og jafnvel að einhverju leyti til veiða innan lögsögu annarra ríkja? Mér leikur forvitni á að vita, m.a. í ljósi þeirrar umræðu sem ég hef lent í á norrænum vettvangi, hvaða undirbúningur hefur átt sér stað að þessu leyti hvað varðar viðmiðunarmörkin sem sett verða hér, samræminguna við innleiðingarnar í nágrannalöndunum og sömuleiðis hvaða samráð hafi verið haft við atvinnugreinina um þennan undirbúning. Er hann kannski eftir í ljósi þess að þetta á svo að klárast með reglugerð?