144. löggjafarþing — 92. fundur,  20. apr. 2015.

efnalög.

690. mál
[17:11]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og þær spurningar sem hann bar fram. Í fyrsta lagi er alveg rétt að þetta er mjög tæknilegt. Ég tel mig ekki mjög tæknilega konu, hv. þingmaður, en ég skal reyna eftir bestu getu að svara þeim spurningum sem vöknuðu hjá honum.

Varðandi skipin, ég byrja þar, var ekki haft sérstakt samband við Norðurlönd og býst ég við að þingmaðurinn sé þar með fróðari en sú sem hér stendur varðandi hvað þar hefur verið rætt. Við erum sem sagt í þessu frumvarpi að fara eftir lögum, reglugerðum og tilskipunum frá ESB um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti og hún verður innleidd með reglugerð en við höfum horft með þetta til gömlu reglugerðarinnar um þessi 2%. Ég veit ekki hvort þetta svarar spurningu hans.

Einar fjórar stórar bensínstöðvar eru komnar með gufugleypana og byrjaðar að innleiða þetta en vitaskuld leggur frumvarpið auknar skyldur á herðar fyrirtækjum sem selja eldsneyti. Hin árlega sala á bensíni hérlendis nær ekki 500 þúsund lítrum á bensínstöð nema að litlu marki. Eins og ég segi eru fjórar bensínstöðvar sem selja meira en 3 milljónir lítra og þær hafa þegar sett upp þennan nauðsynlega búnað.