144. löggjafarþing — 92. fundur,  20. apr. 2015.

efnalög.

690. mál
[17:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hæstv. ráðherra hafi ekki á reiðum höndum án undirbúnings svör við ýmsum tæknilegum spurningum, enda má vel upplýsa um það síðar. Mér bauð í grun að ekki væru mjög margar bensínstöðvar sem afgreiddu meira en 500 þúsund tonn á ári en einhverjar þeirra eru þó taldar í milljónum lítra. Síðan er auðvitað ákvæðið þannig að þetta tekur til endurnýjunar á búnaði starfandi stöðva og allra nýrra sem kæmu til sögunnar og gætu lent upp fyrir þessi mörk. Ég geri ráð fyrir að flestir vilji auka bensínsölu sína þannig að menn mundu væntanlega velta því vel fyrir sér ef þeir væru að opna nýja bensínafgreiðslu, a.m.k. á fjölmennum stöðum, að uppfylla þessar kröfur til að lenda þá ekki í því síðar.

Varðandi brennisteinsinnihaldið ætla ég ekki að fullyrða meira en ég hef efni til þar sem ég hef ekki gögn í höndunum og ekki annað til að reiða mig á en minni mitt en þetta hljómar sem hátt innihald, 2%. Ef ég veit rétt eru menn sums staðar með þetta niðri í 1%, kannski er það á strandsvæðum eða innhöfum, en einhvern veginn slær það mig að sem áframhaldandi 2%, eins og hafa verið í reglugerð sem hámarksinnihald, séu há viðmiðunarmörk ef þau eiga að gilda fyrir allan íslenska flotann.