144. löggjafarþing — 92. fundur,  20. apr. 2015.

landsskipulagsstefna 2015--2026.

689. mál
[17:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gott að fá þetta mál fram. Eftir þessu hefur verið beðið af ýmsum enda er megintilgangur landsskipulagsstefnu, eins og kemur fram í 10. gr. skipulagslaga, að setja fram samræmda stefnu um landnotkun sem byggist á stefnumörkun ríkisins á ýmsum sviðum. Þannig geta sveitarfélögin haft greiðan aðgang að því hvað stjórnvöld eða ríkið er að hugsa hverju sinni. Þetta er einnig gert til þess líka að samræma það sem sveitarfélögin eru að gera sín á milli en í samskiptum við ríkið. Margt er ágætt og gott hér og nefndin á síðan eftir að fara betur yfir einstaka þætti.

Mig langar að taka dæmi um texta sem mér finnst ágætur, það er á bls. 8, um sjálfbært skipulag þéttbýlis. Þar er verið að fjalla um skipulag byggðar og lagt til að það verði stefna ríkisins að skipulag byggðar skuli stuðla að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða með þéttri samfelldri byggð, endurskipulagningu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélags. Það er líka fjallað nánar um þetta í greinargerð. Það sem vekur áhuga minn á þessum þætti málsins er að þetta er í mjög góðum takti við það sem gert hefur verið í Reykjavíkurborg, stefnumörkunina sem hefur átt sér stað þar, og þá hugmyndafræði sem býr að baki þeirri vinnu við skipulagsmál sem þar hefur átt sér stað.

Ef við skoðum athugasemdir við frumvarpið kemur fram, varðandi sjálfbært skipulag þéttbýlis, að áhersla er lögð á að blanda atvinnustarfsemi, tengja hana íbúðabyggð, stytta vegalengdir vegna daglegra athafna og lækka þannig kostnað samfélagsins vegna innviða, svo sem gatna og veitukerfa, skapa skilyrði fyrir almenningssamgöngum og öðrum valkostum um ferðamáta. Þetta finnst mér mjög gott og ég er ánægð með þetta og kannski ekki síst vegna þess að þetta er í góðu samræmi við þá stefnumörkun sem hefur átt sér stað hjá borginni og núverandi meiri hluta þar.

Þá langar mig líka að nefna að ég fagna því að hér sé verið að fjalla um — þetta hefur komið fram áður í annarri mynd en það er sama, þetta er að koma hér fram — þann þátt sem snýr að skipulagi á haf- og strandsvæðum. Þetta hefur okkur sárlega vantað, eyríki sem er með jafnstóra efnahagslögsögu og við erum með. Okkur hefur vantað samræmi á milli ákvarðanatöku ólíkra aðila þegar kemur að haf- og strandsvæðum. Þetta er atriði sem skiptir máli og ég veit að nefndin þarf að skoða þetta. Til hefur orðið töluvert mikil sérfræðiþekking á þessu sviði, t.d. í stofnun Háskóla Íslands á Ísafirði. Þar hefur töluvert verið um þetta fjallað. Ég er ánægð með að þetta skuli vera komið hingað inn og að við séum að fara að fjalla um breytingar á því hvernig við nálgumst skipulag á haf- og strandsvæðum.

Þá langar mig að koma að því sem mér þykir ekki síst skipta máli í þessu og það er skipulag miðhálendisins. Í þessari tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu er verið að fjalla um skipulag á miðhálendi Íslands. Í 1. kafla segir að standa verði vörð um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist og við uppbyggingu innviða á miðhálendinu verði að taka tillit til þess. Um þetta er fjallað í nokkrum atriðum sem öll eru ágæt. Mig langar að nefna það hér að ég tel engu að síður, og við í Samfylkingunni, að ganga megi lengra í þessu. Við ályktuðum og mikil vinna hefur verið unnin hvað þessi mál varðar í málefnastarfi í Samfylkingunni. Á síðasta landsfundi okkar, sem haldinn var í lok mars á þessu ári, var ályktað sérstaklega og nokkuð ítarlega um þjóðgarða á miðhálendinu, og ég held að við hljótum að stefna að því að hafa þjóðgarða á miðhálendinu. Hér kemur fram að menn hafa viljað draga ákveðna línu utan um miðhálendið og ég tel að við eigum að stíga skrefið alla leið og hreinlega vinna okkur í þá átt að það verði þjóðgarður.

Við lýstum yfir stuðningi við tillögu náttúruverndarsamtaka um að stofna þjóðgarð á miðhálendinu vegna þess að með þjóðgarði má tryggja varðveislu hinna miklu náttúruverðmæta miðhálendisins og tryggja að merkileg náttúra verði sjálfbær uppspretta atvinnu, arðs og upplifunar fyrir alla. Við viljum að svæði miðhálendisins verði allt ein skipulags- og stjórnunarheild með aðild sveitarfélaga og annarra umhverfisstjórnvalda og fulltrúa félagasamtaka almennings. Þá viljum við einnig að unnin verði verndaráætlun fyrir miðhálendið í heild og hálendið skilgreint eftir flokkun Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna, verndarþörf, kostum fyrir útivist og ferðaþjónustu og annarri nýtingu sem samrýmist náttúruvernd og truflar ekki starfsemi þjóðgarðsins. Þá skiptir líka máli að frekari uppbygging virkjana og orkuflutnings, sem ekki fellur að verndarhlutverki þjóðgarðsins, verði útilokuð og að samgöngur á svæðinu miðist fyrst og fremst við verndargildi þjóðgarðsins og þarfir gesta hans. Einnig verði mannvirki vegna ferðaþjónustu, annarrar landnýtingar og rannsóknarstarfs takmörkuð sem unnt er við jaðar þjóðgarðsins eins og menn nálgast málið hér. Mér sýnist, miðað við það sem lagt er til hér, að það gæti verið eðlilegt skref að ganga alla leið í framhaldinu.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum segja að þetta er heilmikil stefna og gríðarlega margt gott í henni. Við eigum eftir að fjalla vel um þetta í umhverfis- og samgöngunefnd. Mig langar engu að síður að nefna það að ég hef áhyggjur af því að þegar við hér í þinginu samþykkjum þingsályktunartillögur um atriði sem skipta máli og við teljum að framkvæmdarvaldið taki alvarlega þá verður stundum því miður lítið úr aðgerðum. Við erum dálítið brennd af því að ríkisstjórnin er með í höndunum samþykkt frá Alþingi um rammaáætlun þar sem þingið hefur lagt í það mikla vinnu að fara í gegnum og samþykkja flokkun á ákveðnum kostum í verndar- og nýtingarflokka. Samt er það þannig að nú eru tvö ár liðin frá því að hún var samþykkt og engar hreyfingar eru í þá átt að menn setji fjármuni í að framkvæma verndun og friðlýsa þau svæði sem eru í verndarflokknum. Það gengur ekki.

Það þýðir ekki bara að horfa á nýtingarflokkinn af því að menn eru áhugasamir um hann og leggja allt kapp á að koma honum í ferli. Menn þurfa að horfa með sama hætti á verndarflokkinn. Það þýðir ekki að við hér í þinginu samþykkjum fína stefnu og þingsályktunartillögu sem kveður á um mikilvæga hluti og síðan fari það eftir áhugasviði ríkisstjórnar hverju sinni eða ráðherra hvað er framkvæmt. Það þarf að vera jafnvægi í hlutunum. Takist okkur að samþykkja tillögu um landsskipulagsstefnu vona ég að hún verði til þess að styðja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra í því að hefjast handa við að friðlýsa þau svæði sem eru í verndarflokki rammaáætlunar; það verður líka að gerast eigi eitthvert traust að vera til rammaáætlunarferlisins. Ég ætla ekki að fara í umræður um það hvað mér finnst um breytingartillögurnar við rammaáætlun, sem liggja fyrir þinginu, heldur ætla ég eingöngu að beina sjónum að því sem hér er rætt um og þá verndarflokkinn. Við erum orðin svolítið brennd af þessu og ég vona svo sannarlega að með þessu fái hæstv. ráðherra vind með sér til að hefjast handa við að vinna með verndarflokkinn eins og þingið ákvað á sínum tíma.