144. löggjafarþing — 92. fundur,  20. apr. 2015.

landsskipulagsstefna 2015--2026.

689. mál
[17:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta þingmál er komið fram. Ég hef nú lýst eftir því nokkrum sinnum hér á þingi í vetur í samhengi við önnur mál sem uppi eru — ég kem kannski að því betur á eftir. Hér er mikil vinna og metnaðarfull, held ég að megi segja, og ánægjulegt að forveri hæstv. núverandi umhverfisráðherra ákvað strax haustið 2013 að fylgja eftir því starfi sem hófst á síðasta kjörtímabili með setningu laganna og 10. gr. um að landsskipulagsstefna skuli unnin og þá með þeirri tillögu sem þáverandi umhverfisráðherra lagði fram á þingi en náði ekki afgreiðslu rétt fyrir kosningar 2013.

Að uppistöðu til er ég mjög sáttur við framsetninguna á þessu máli. Hér er fjallað á ákaflega fallegan hátt um málið, þetta er fallega orðað allt og vel meint og enginn efast um það. Spurningin er kannski meira sú hvaða bit sé í þessu, hvaða raunveruleg áhrif þetta hafi þegar til stykkisins kemur varðandi framkvæmdaáform versus verndun og friðun og þá sérstaklega miðhálendisins án þess að ég geri lítið úr þeim þáttum öðrum sem tillagan tekur til.

Hér er að sjálfsögðu lagt upp með það, í 1. tölulið í 1. kafla, að allt skipulag og landnotkun skuli stuðla að sjálfbærri þróun og einnig að þetta sé sveigjanlegt og stuðli að seiglu gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum. — Ég strögglaði aðeins við þetta orð seigla en ég þykist vita að það sé þýðing á enska orðinu „resilience“. Kannski er það viðurkennd þýðing en eitthvað stóð það samt í mér að nota þetta orð um þetta fyrirbæri, en ég held að ég skilji hvað verið er að fara.

Um skipulag á miðhálendi Íslands, svo að ég staldri nú aðallega við það, segir, með leyfi forseta:

„Staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist. Uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess.“

Þetta er allt gott og gilt. Og fyrsti liður, um víðerni og náttúrugæði, hljóðar svo:

„Viðhaldið verði sérkennum og náttúrugæðum miðhálendisins með áherslu á verndun víðerna hálendisins, landslagsheilda, mikilvægra vistgerða og gróðurlenda og verðmætra menningarminja.“

Svo er þessu fylgt frekar eftir og eins og plaggið eðlilega ber með sér, sem stefnumótun af hálfu ríkisins, þá færist það í hendur sveitarfélaga, sem eiga land inn á miðhálendið eða fara með skipulagsvaldið með þeim takmörkunum sem lög og þá þessi stefna setja, að útfæra það og taka mið af þessu í áætlunum sínum, enda séu þau þá í stöðu til þess. Það vekur þá strax spurningar, til dæmis um stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaganna og gagnvart þessu plaggi. Hver er staðan?

Ef forsvarsmenn sveitarfélags með land inn á miðhálendið segja: Við teljum okkur bundna af því, samkvæmt samþykktri landsskipulagsstefnu, að heimila ekki svona mannvirkjagerð á því svæði sem fellur undir miðhálendið eða víðernið, þá kemur bara einhver kerfisáætlun og segir: Heyrðu, jú, víst samt, af því að það er hún sem ræður en ekki ákvörðunarvald sveitarfélagsins. Meðal annars af þeim ástæðum hafði ég lýst eftir því hvort þessi tillaga væri ekki að koma og ég tel eðlilega röð á hlutunum að hún sé afgreidd fyrst og að Alþingi fari vel ofan í saumana á þeim viðmiðum sem hér eru sett, þeirri stefnu sem hér er fest, því að hún á að vera útgangspunktur allra annarra aðila eins og ég vil nálgast þetta. Og ég tel að það sé líka andi laganna. Fyrst er hún mótuð og síðan taka sveitarfélögin mið af henni og síðan, þá eftir atvikum, er kerfisáætlun unnin með hliðsjón af henni líka. Hér segir áfram:

„Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði þess gætt að mannvirki og umferð um hálendið skerði víðerni og önnur sérkenni og náttúrugæði hálendisins sem minnst.“

Þarna stoppaði ég nú. Mér finnst eitthvað vanta upp á að þetta sé nógu metnaðarfullt. Ég spyr: Hefði ekki frekar mátt nota orðalagið „nema brýna nauðsyn beri til“ — og þá sé þeirri skerðingu alltaf haldið í lágmarki þannig að menn þurfi virkilega að rökstyðja hvers vegna framkvæmdir eru nauðsynlegar þó að þær hafi í för með sér skerðingu á ósnortnum svæðum og víðernum? Ég held að það eigi að glíma aðeins við sterkara orðalag þarna og snúa sönnunarbyrðinni dálítið við meira en þarna er gert, finnst mér. Þetta er bara eins og það sé einhver kvarði — „sem minnst“ er það 20%, 30% eða hvað, nálgast þetta bara einhvern út frá því, útgangspunkturinn er að þetta á ekki að skerða. Við viljum verja þetta og vernda eins og hægt er. Ef upp koma aðstæður þar sem mjög brýnir almannahagsmunir kalla á að eftir sem áður séu mannvirki leyfð eða framkvæmdir þurfi að rökstyðja það mjög vel og menn þurfi að hafa fyrir því að sýna fram á að í þá framkvæmd sé ráðist á þann veg að röskunin sé eins lítil og hún getur mögulega orðið.

Eins er þetta með það sem kemur í framhaldinu í tölulið 1.1 sem er lykilatriði þessa máls að mínu mati:

„Á svæðum sem flokkast sem víðerni verði svigrúm fyrir takmarkaða mannvirkjagerð, svo sem gönguskála, vegslóða og göngu- og reiðleiðir. Umfangsmeiri mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni miðhálendisins.“

Þessu er ég hjartanlega sammála. Þetta er í sjálfu sér mjög í anda meginnálgunarinnar í svæðisskipulagi miðhálendisins sem notast hefur verið við fram að þessu. Betur er komið inn á þetta í kafla 1.2.1, til dæmis í sambandi við ferðaþjónustuna þar sem segir:

„Uppbygging ferðamannaaðstöðu verði takmörkuð á miðhálendinu og megináhersla lögð á uppbyggingu á jaðarsvæðum hálendisins og á nokkrum afmörkuðum svæðum við aðalvegi hálendisins.“

Jaðarmiðstöðvar úti í hálendisbrúninni utan sjálfs meginhálendisins — þannig, svo að dæmi sé tekið, nálguðust menn hlutina þegar stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var undirbúin og miðstöðvunum í þeim þjóðgarði var valinn staður, að þær skyldu vera í hálendisbrúninni eða utan sjálfs miðhálendisins af því að menn vilja ekki meiri háttar mannvirkjagerð uppi á sjálfu hálendinu, hótel eða annað því um líkt. Jú, hálendismiðstöðvar eru nokkrar til staðar, skálasvæði og fjallasel og afmarkaðri þættir. Þetta tel ég vera alveg rétta nálgun, það vantar ekkert upp á það.

En mér sýnist líka, ef við ætlum að lifa upp til þessa orðalags, að við hljótum að spyrja okkur: Þarf þá að ræða frekar um háspennulínur og uppbyggðan veg yfir Sprengisand? Það er ekki takmörkuð mannvirkjagerð, það er sko langt frá því. 240 kílóvatta risavaxin háspennumöstur, eru það ekki. Ég neyðist bara til að vera praktískur og spyrja: Hvað þýða þessi orð? Ávísun á hvað eru þau í ákvarðanatöku, eftir atvikum átökum um þessa hluti inn í framtíðina? Gildir þetta orðalag að við ætlum ekki að leyfa annað en takmarkaða mannvirkjagerð, svo sem gönguskála, vegslóða — vegslóði er ekki uppbyggður vegur í staðli, það er alveg á hreinu, samkvæmt þeirri íslensku sem ég kann — og umfangsmeiri mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni hálendisins og það mundu uppbyggðar hraðbrautir og risavaxnar háspennulínur gera. Þarf frekari vitna við? Eigum við þá ekki, góðir félagar, að samþykkja þessa tillögu fyrst, bíða með hitt, hóa í Landsnet og biðja þá að fara að góðu fordæmi Vegagerðarinnar, sem er hætt frekari vinnu að umhverfismati á vegi yfir Sprengisand? Það er búið að leggja það til hliðar enda voru aldrei sterk rök fyrir því hjá síblankri Vegagerðinni að fara að eyða peningum í það sem er ekki einu sinni á áætlun hjá henni næstu 15–20 árin.

Tíminn leyfir því miður ekki að ég fari yfir fleiri hluti eins og ég hefði gjarnan viljað. Skipulag í dreifbýli — þar eru margir mjög góðir hlutir varðandi nýtingu landbúnaðarlands, ferðaþjónustuna og sátt við umhverfið. Svipað má segja um aðra þætti eins og búsetumynstur og skipulag hafs og stranda. Ég tel að það sé mjög góður grunnur í þessari tillögu til að vinna þetta til enda en auðvitað ýmsir hlutir sem ástæða er til að fara betur ofan í.