144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Það sagði mér maður fyrir margt löngu að eini kosturinn við að hafa vinstri stjórn væri sá að það væri friður á vinnumarkaðnum. Mér hefur oft orðið hugsað til þessara orða í gegnum tíðina því að þau sannast aftur og aftur og ekki síst í dag. Sá grimmi tónn sem var strax í verkalýðsleiðtogum áður en greidd voru atkvæði um verkföll rifjaði þessi orð upp. En hvernig er staðan í dag? Ekki vinstri stjórn og allt í verkföllum þrátt fyrir mestu kaupmáttaraukningu í Evrópu og útflutningsgreinar standa vel.

Byrjum á sjávarútveginum. Flestir af okkar aðalnytjastofnum standa mjög vel. Stór og öflug skip ná að athafna sig þrátt fyrir rysjótta tíð og fiskiðnaðurinn blómstrar með tæknivædd fiskiðnaðarfyrirtæki sem ná að hámarka arðsemina úr auðlindum sjávar, reyndar vel skattlagðar. Ferðaþjónustan hefur aldrei staðið betur, eflist með hverju árinu og skapar orðið meiri gjaldeyri en sjávarútvegurinn. Helsta vandamálið er fjöldi ferðamanna, ef vandamál skyldi kalla, og takmarka þyrfti umferð um helstu náttúruperlur landsins. Getur verið að flest láglaunastörfin séu í þessum greinum? Ef svo er hljótum við að vera sammála um að bæta úr því og gera þá kröfu að úr verði bætt.

Við getum öll verið sammála því að laun undir 300 þús. kr. eiga ekki að þekkjast og síst í þeim geira sem stendur undir velmegun okkar. Ekki er óeðlilegt að sumum finnist þeir hafa dregist aftur úr öðrum í launum, en ef allflestum finnst þeir hafa dregist aftur úr spyr ég: Aftur úr hverjum? Tökum tillit hvert til annars og einbeitum okkur að því að hækka lægstu launin í þessari lotu. Ég biðla til heilbrigðisstétta að hlífa sjúkum og öldruðum við afleiðingum langs verkfalls. Fórnum ekki góðum stöðugleika með löngum átökum á vinnumarkaðnum.