144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Atkvæðagreiðslu Verkalýðsfélags Akraness sem og annarra aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands um verkfall lauk á miðnætti. Þátttaka félagsmanna hjá Verkalýðsfélagi Akraness var í kringum 60% og verkfallið var samþykkt með afgerandi meiri hluta, 98% atkvæða þeirra er tóku þátt. Kosningaþátttaka félagsmanna Starfsgreinasambandsins þegar heilt er á litið var um 50% og samþykktu 95% verkfallsaðgerðir.

Þessar tölur sýna vel þá hörku sem er í kjarabaráttu verkafólks og óhætt er að segja að fréttir um hækkanir stjórnarmanna, m.a. hjá HB Granda um rúm 33%, hafi hert launakröfur og baráttu verkafólksins allverulega. Launahækkanir stjórnarmanna hafa sýnt verkamönnum að verulegt svigrúm er til launahækkana innan ákveðinna fyrirtækja. Krafan er sú að svigrúmið skili sér alla leið til þeirra sem standa á gólfinu og skapa verðmætin.

Ef skoðaðar eru fréttir vegna verkfallsaðgerðanna á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness segir þar að aðgerðirnar muni ná til 116 fyrirtækja á svæðinu. Þar er meðal annars um að ræða framleiðslu- og þjónustufyrirtæki. Þetta umfang aðgerða mun hafa mikil og víðtæk áhrif út í samfélagið. Hér er um að ræða kjarabaráttu þeirra sem eru á lágmarkslaunum. Það er erfitt fyrir þennan hóp sem vegur aðeins 4% af þeim sem eru á vinnumarkaði á Íslandi í dag að heyra að svigrúmið fyrir launahækkanir til þeirra sé einungis í kringum 3%. Láglaunafólkið í landinu getur ekki verið eini hópurinn eða meðal þeirra hópa sem eiga að bera ábyrgð á stöðugleika. Fleiri verða að bera þá ábyrgð og á það jafnframt við um stjórnendur fyrirtækja og þá sem hafa þegið á bilinu 33–75% launahækkanir. Bera þeir enga ábyrgð, eða hvað? Það væri fróðlegt að heyra hvaða áhrif þær hækkanir hafa á stöðugleika. Það væri gaman að heyra frá Samtökum atvinnulífsins um þá þætti.

Það fer lítið fyrir varnaðarorðum þegar (Forseti hringir.) þessar hækkanir eiga sér stað. Af hverju er það? Gildir ekki það sama fyrir alla hópa?